Hádegisfundur Sagnfræðingafélags Íslands í Þjóðminjasafninu, þriðjudaginn 21. nóvember kl. 12:05-12:55. Aðgangur ókeypis og öllum heimill.
Í útdrætti fyrirlesara, Guðmundar Jónssonar, segir:
Allt frá því að sagnfræðin gerði tilkall til þess að teljast til vísinda á 19. öld hefur hlutlægnishugtakið verið miðlægt í þekkingarfræði greinarinnar. Sagnfræðingar töldu að hægt væri að komast að öruggum, hlutlægum sannleika um fortíðina með rannsóknum á heimildum og vönduðum vinnubrögðum, umfram allt heimildarýni. Viðhorf og gildismat sagnfræðingsins kæmu þar ekki nærri.
Þessi pósitífíska vísindahugmynd hefur ekki staðist tímans tönn og á síðustu áratugum hafa verið uppi miklar efasemdir um að sagnfræðin geti yfirleitt fært okkur haldgóða þekkingu á fortíðinni. Sumir ganga jafnvel svo langt að segja að söguleg frásögn sé bara sjónarmið þess sem hana skrifar, sagan sé því ekkert annað en aragrúi af sjónarmiðum.
Í erindinu verða reifaðar hugmyndir sagnfræðinga um hlutlægnishugtakið og spurt hvort því sé viðbjargandi á okkar póstmódernísku tímum.
Guðmundur Jónsson er prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands.