Næstkomandi þriðjudag, þann 4. desember, verður síðasti hádegisfyrirlestur vetrarins í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni Hvað er fátækt? Að þessu sinni mun Gísli Gunnarsson sagnfræðingur og prófessor emeritus við Háskóla Íslands flytja erindið „Fátækt á Íslandi í aldanna rás“.
Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05 og lýkur klukkan 13:00.
Efnislýsing:
Almenn skilgreining: Sá/sú er fátæk(ur) sem ekki getur byggt lífsafkomu sína og afkomenda sinna með eigin vinnu eða eigin fé eða lögboðnum styrkjum. Með lífsafkomu er átt við þær lágmarkskröfur sem gerðar eru í samfélaginu hverju sinni til sómasamlegs lífsframfæris. Þessi skilgreining er afstæð í tíma þar sem mjög ólikar kröfur hafa verið gerðar hverju sinni um sómasamlegt lifsframfæri og er jafnvel misjöfn meðal fólks sem lifir samtímis.
Rætt verður um fátækt fyrr á tímum þegar fyrst og fremst voru gerðar kröfur til fæðis og skæðis og umfang ófrjáls einlífis vinnuhjúa var besti mælikvarðinn á mat samfélagsins á því hvort ungt fólk gæti alið önn fyrir afkomendum. Síðan verður lesið úr talnaefni í hverju fólst neysla fólks á mismunandi tímum í nútímasamfélagi landsins, m.a. til að lýsa breytileikanum í neyslusamsetningu þjóðarinnar (eftir síbreytilegum vísitölugrunni) og undirstrika enn þá frekar afstæðni hugtaksons fátækt.