Skip to main content

Þriðjudaginn 4. febrúar flytja Skúli Sigurðsson vísindasagnfræðingur og Stefán Pálsson sagnfræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Foruga fagra borg“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00. Hann er opinn öllu áhugafólki um sögu og skipulagsmál.
Í erindi sínu munu fyrirlesarar einbeita sér að því ævarandi vandamáli borga að finna jafnvægi milli forar og fegurðar. Þeir munu einna helst einblína á atburðarás fyrstu áratuga 20. aldar á Íslandi þegar forin og skipulagsólán virtust vera að ná yfirhöndinni í þéttbýlisstöðum við sjávarsíðuna á Íslandi með tilheyrandi afleiðingum fyrir lýðheilsu (sjá Bæirnir byggjast eftir Pál Líndal frá 1982).
Á fyrri hluta aldarinnar voru viðhorf málsmetandi manna til Reykjavíkur mjög ólík. Í ljóðabókinni Fagra veröld (1933) mærði Tómas Guðmundsson borgina og þá borgarmenningu sem þá var í burðarliðnum. Rúmum áratug síðar býsnaðist Halldór Kiljan Laxness hins vegar í greininni „Landkynníng“ yfir skorti á borgarbrag sem honum fannst auðkenna höfuðstaðinn: „Göturnar í Reykjavík eru íslensk landkynníng. Það er alveg sama hvað miklu skrumi er dreift til útlendinga frá landkynníngarstassjónum hér innanlands, göturnar batna ekki fyrir því; þessar götur eru ekki sambærilegar við neitt í heiminum nema ófærðina á austurvígstöðvunum.“ (Sjálfsagðir hlutir: Safn ritgerða [Reykjavík 1946; birtist upphaflega 1944], bls. 200-204).
Borgarsaga snýst um vegi, skolplagnir, vatn, gatnagerð, rafmagn og gas,fjarskipti, verslanir, veitingahús og griðastaði, glæsihallir og leiguhjalla, ríkidæmi og örbirgð. Saga borga og borgarmenningar snýst vitanlega um margt fleira en í erindinu verða ferskir vindar nýrri tæknisögu, þar sem tæknikerfi borga er í öndvegi, látnir leika um forugar og fagrar götur íslenskrar fortíðar.
Skúli Sigurðsson lauk BA-prófi í eðlis- og stærðfræði frá Brandeis-háskóla 1981 og doktorsprófi í vísindasögu frá Harvard-háskóla 1991. Hann er sjálfstætt starfandi fræðimaður og lausráðinn stundakennari við HÍ. Auk þess að vinna á sviði vísindasögu, sinnir hann rannsóknum á tæknisögu (einkum sögu rafvæðingar á Íslandi) og nútímalíftækni (ekki síst deilum um deCODE/ÍE og MGH); sjá www.raunvis.hi.is/~sksi.
Stefán Pálsson lauk BA-prófi í sagnfræði frá HÍ árið 1998 og MS-prófi í Tækni- og vísindafræðum frá Edinborgarháskóla árið 2001. Hann er forstöðumaður Minjasafns Orkuveitu Reykjavíkur og hefur einkum skrifað greinar á sviði tækni- og orkusögu.