Laugardaginn 3. september næstkomandi standa Félag áhugamanna um sögu læknisfræðinnar og Sagnfræðingafélag Íslands fyrir fyrirlestri þýska fræðimannsins Andreas Frewer um læknaréttarhöldin í Nürnberg 1946-1947. Fyrirlesturinn er á ensku og kallast „Physicians without Ethics? 70 Years Nuremberg Doctor´s Trial“. Hann fer fram í Þjóðminjasafninu og hefst kl. 10:00.
Í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar fóru fram réttarhöld í Nürnberg yfir þýskum læknum sem gert höfðu hörmulegar rannsóknir á fólki í tíð nasista. Læknaréttarhöldin mörkuðu tímamót í sögu læknisfræðinnar. Þau snerust um læknisfræði án mannúðar og vísindi án siðferðislegra takmarkana. Helsinki-yfirlýsing Alþjóðasamtaka lækna má rekja til svokallaðra Nürnberg-reglna sem samdar voru í kjölfar þessara réttarhalda.
Andreas Frewer er prófessor í siðfræði og sögu læknisfræðinnar við Háskólann í Erlangen-Nürnberg í Þýskalandi. Hann nam læknisfræði, heimspeki og sögu læknisfræðinnar í Munchen, Vín, Berlín og víðar. Frewer er höfundur yfir 200 greina og nokkurra bóka um siðfræði og sögu læknisfræðinnar.