Skip to main content

Þriðjudaginn 30 september flytur Guðni Th. Jóhannesson hádegisfyrirlesturinn „Með því að óttast má …“ Ástæður símhlerana í kalda stríðinu. Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands Hvað er að óttast?

Í erindinu verða rök yfirvalda fyrir hlerunum hverju sinni vegin og metin. Rakið verður hvað réð því að ákveðið var að hlera hjá sumum sósíalistum og/eða andstæðingum Bandaríkjahers hér á landi, en ekki öðrum. Sýnt verður fram á þann greinarmun sem gera verður á hinum sérstöku ástæðum sem réðu því í hvert skipti að yfirvöld ákváðu að grípa til þessara aðgerða, og hins almenna ótta þeirra við sósíalista og stefnu þeirra. Minnst verður á þann skort á heimildum sem torveldar allar rannsóknir á sögu símhlerana í kalda stríðinu og að lokum verður rætt um „dóm sögunnar“ í þessu máli.

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.