Skip to main content

Fyrsti hádegisfundur Sagnfræðingafélags Íslands á nýju ári fer fram þriðjudaginn 15. janúar næstkomandi. Hrafn Sveinbjarnarson sagnfræðingur flytur hádegisfyrirlesturinn Syndaflóðið kemur eftir vorn dag – um varðveislu íslenskra skjalasafna. Fyrirlesturinn er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands Hvað er varðveisla?

Syndaflóðið kemur eftir vorn dag – um varðveislu íslenskra skjalasafna. Útdráttur úr fyrirlestri:

Skjalasöfn endurspegla það þjóðskipulag og stjórnkerfi sem ríkir á hverjum tíma. Rétt meðferð og örugg varðveisla skjala í stjórnsýslu og hjá skjalavörslustofnunum í borgaralegu þjóðfélagi er grundvöllur réttarríkis, borgaralegra réttinda og forsenda öflugra sagnfræðirannsókna. Án skipulegrar og öflugrar opinberrar skjalavörslu eru upplýsingalög og stjórnsýslulög til lítils. Varðveisla íslenskra skjalasafna er háð því að faglega sé að henni staðið. Öflugt Þjóðskjalasafn sem hefur á að skipa skjalavörðum menntuðum í sagnfræði með formlega viðbótarmenntun í skjalfræðum er frumforsenda þess. Umfjöllunarefni fyrirlestrarins verður varsla opinberra skjalasafna og einkaskjalasafna á Íslandi og nokkur vandamál hennar t.d. óraunhæfar hugmyndir um tölvutækni og skjalasöfn, eyðilegging skjalasafna vegna skilningsleysis á heild þeirra og innra skipulagi og gáleysisleg og ólögleg grisjun skjala.

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.