Skip to main content

Gísli Sigurðsson flytur erindið Arfur og miðlun: Hugmyndafræði og nýjar rannsóknir í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands. Hádegisfundir félagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og hefjast að venju klukkan 12:05 og lýkur klukkan 12:55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

Skráning á samtíðinni og rannsóknir á fortíðinni mótast af hugmyndafræði á hverjum tíma; hugmyndafræði sem hefur áhrif á það hvað telst þess virði að það sé skráð eða rannsakað. Þessi hugmyndafræði hefur bæði áhrif á val fræðimanna á viðfangsefnum og þau sem stjórna því hvernig peningum er veitt til rannsókna og miðlunar á þeim. Í fræðistörfum okkar reynum við jafnan að glíma við þann vanda sem af þessu hlýst. Við verðum, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að fást við það sem einhver vill veita peningum til en reynum jafnframt að koma okkar sjónarmiðum að eftir því sem tök eru á. Í rannsóknum innan fræðasamfélagsins er fólk heldur frjálsara í vali á viðfangsefnum en þegar kemur að miðlun til almennings, hvort sem er í bókaskrifum, kvikmyndagerð eða sýningarhaldi. Í fyrirlestrinum mun ég taka dæmi af tveimur sýningum í Þjóðmenningarhúsi sem ég hef sett upp í félagi við hönnuðina Sigurjón Jóhannsson og Steinþór Sigurðsson. Báðar fjölluðu þær um efni sem ráðamenn töldu áhugavert af menningarpólitískum ástæðum: Víkinga og landafundi í kringum árþúsundamótin og handritin í Árnasafni. Með því að hafa þessar sýningar í Þjóðmenningarhúsinu fengu þær ákveðið pólitískt vægi. Viðbrögð margra einkenndust til dæmis af því hve húsið sjálft og endurgerð þess var nátengd ríkisstjórninni í hugum fólks og mörg litu því á sýningarnar sem hluta af myndarsköpun hennar fyrir sjálfa sig. Efnið sjálft, víkingar og handritin, hefur einnig verið mjög miðlægt í umfjöllun og hugmyndum um þjóðerni, ekki síst í þeirri gagnrýnu endurskoðun sem fram hefur farið á því sviði undanfarin ár. Hið táknræna hlutverk víkinga og handritanna í þjóðernishugmyndum og sjálfsmynd Íslendinga hefur því eðlilega verið hluti af þeirri gagnrýni. Þannig hafa sum jafnvel yfirfært þá gagnrýnu hugsun á sjálft viðfangsefnið og fundist nóg komið af víkingum og handritum í bili – vegna þess hve mjög táknrænt hlutverk þessara fyrirbæra tengist því sem fólk getur ekki lengur fellt sig við í þjóðernisumræðunni.
Verkefni okkar sem stöndum fræðamegin í tilverunni er að nýta þann pólitíska áhuga sem er á viðfangsefnum okkar til að koma nýrri fræðilegri sýn á framfæri um leið og við svörum eftirspurn eftir miðlun á arfinum. Okkur er orðið ljóst að það er ekki til nein hlutlaus miðlun á arfi. Hugmyndir okkar um fortíðina og val á því hvað við teljum merkilegt endurspeglar alltaf ákveðna afstöðu. Sýningar sem snúast um svo miðlæg fyrirbæri í þjóðmenningararfinum og hér um ræðir eru því kærkomið tækifæri til að endurskoða þær hugmyndir sem umlykja þau í vitund almennings. Í sýningunni um víkinga og landafundi var til dæmis lögð áhersla á fjölmenningarleg einkenni þess samfélags sem varð til á Íslandi í öndverðu – sem andsvar við þeirri misnotkun á fortíðinni sem hefur lengi viðgengist á þeirri forsendu að Íslendingar væru einsleit þjóð komin af fræknum norrænum víkingum. Einnig var reynt að leggja áherslu á það hvernig þekking okkar væri byggð upp annars vegar af sögum í ritheimildum og hins vegar af fornleifum – sem drægju að mörgu leyti upp ólíkar en þó sambærilegar myndir. Þetta gaf tækifæri til að viðra ýmsar nýjar rannsóknir, jafnvel að frumbirta niðurstöður á sviði fornleifafræði, og draga fram að í landafundunum var fólk frá Íslandi og Grænlandi að sjálfsögðu bara að finna lönd sem voru þegar fundin og byggð af öðrum. Á Vínlandi hittist fólk engu að síður í fyrsta sinn aftur frá því að mannkynið greindist í sundur í öndverðu og sá fundur var vel þess virði að við minntumst hans 1000 árum síðar. Í sýningunni um handritin var haldið fast í þann þráð að velta upp spurningum um hvað væri svona merkilegt við handritin — til að skýra hvernig þau hefðu fengið það hlutverk að vera höfð til sýnis í fallegasta húsi höfuðborgar íslenska ríkisins (sem er alls ekki sjálfsagður staður fyrir handrit frá miðöldum í öðrum ríkjum). Þannig gafst tækifæri til að miðla þeim rannsóknum sem hafa verið ofarlega á baugi að undanförnu um viðtökur fornsagna og kvæða, allt frá því að efni þeirra var túlkað á fornum myndristum um alla Norðurálfu eða mælt af munni fram og þar til íslenska þjóðin tók sér frí til að fylgjast með heimkomu fyrstu handritanna árið 1971. Út frá þessu sjónarhorni var hægt að velta upp trúarlegu, pólitísku og menningarlegu hlutverki bókarinnar sem fyrirbæris um leið og hin hugmyndafræðilega togstreita í kringum notkun og misnotkun á þessum svokallaða menningararfi á síðari öldum var dregin fram.
Niðurstaðan er sú að sýningar sem opinberir aðilar hafa áhuga á að setja upp, af ólíkum pólitískum hvötum, eiga að geta nýst okkur í fræðunum til að miðla þeirri sýn sem við teljum fræðilega áhugaverða á hverjum tíma. Hefðbundin viðfangsefni geta alltaf boðið upp á nýjungar í nálgun og það er ástæðulaust að falla í þá svartsýnisgryfju að halda að með því að fjalla um efni sem okkur finnst stundum að hafi þjónað annarlegum pólitískum tilgangi séum við um leið orðin þátttakendur í þeirri pólitísku notkun á fortíðinni sem okkur hefur þótt aðfinnsluverð. Viðfangsefnið sjálft er að jafnaði saklaust af þeirri misnotkun og það stendur upp á okkur að gera því skil með þeim hætti að fólk sjái í gegnum hana.

Höfundur er rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum