Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, þann 19. nóvember, mun Albína Hulda Pálsdóttir flytja erindi sem kallast: „Dýrabeinasöfn sem þjóðminjar.“ Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Hvað eru þjóðminjar?“
Í lýsingu á erindi Albínu segir:
Íslensk fornleifafræði hefur verið í miklum blóma undanfarinn 15 ár og með bættum uppgraftaraðferðum og fjölgun sérfræðinga í dýrabeinafornleifafræði, skordýragreiningum og greiningu plöntusýna hafa þær upplýsingar sem hægt er að ná úr hverjum uppgreftri margfaldast. Nokkrir uppgreftir undanfarin ár hafa skilað mjög stórum dýrabeinasöfnum, t.d. uppgröftur á Alþingisreit, Hofstöðum í Mývatnssveit, Hólum og Skálholti. Þessi söfn telja hvert um sig tugi og jafnvel hundruð kassa. Eðli máls samkvæmt þurfa þessi söfn mikið geymslupláss með tilheyrandi kostnaði.Í dýrabeinafornleifafræði er það heildin sem skiptir máli en ekki stök bein og því er afar mikilvægt að stór dýrabeinasöfn sem grafin hafa verið upp á vandaðan hátt séu varðveitt í heild sinni. Íslensk dýrabeinafornleifafræði er enn að slíta barnsskónum og á flestum dýrabeinasöfnum hafa aðeins verið gerðar grunngreiningar og því ljóst að mikið af upplýsingum er enn í söfnunum. Í fyrirlestrinum verður þeirri hugmynd velt upp að ákveðin dýrabeinasöfn verði skilgreind sem þjóðminjar til að tryggja varðveislu þeirra til framtíðar enda hafi þau sérstaka merkingu og mikilvægi fyrir menningarsögu Íslands svo vísað sé í núgildandi lög um menningarminjar nr. 80 frá 2012.
 
Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.