Skip to main content

Þriðjudaginn 27. nóvember flytur Vilborg Auður Ísleifsdóttir hádegisfyrirlesturinn „Manngerðar hörmungar á 16. öld. Dýrt er drottins orðið.“ Fyrirlesturinn hefst klukkan 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er síðasta erindi þessa misserisins í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið, en þema þessa hausts er hörmungar.
Sköpun nútímaríkisins og barátta Lúhters fyrir endurnýjun kaþólsku kirkjunnar voru pólitískar stefnur sem komu upp á svipuðum tíma. Þær höfðu í kjölfarið áhrif hvor á aðra og nýttust hvor annarri með ýmsum hætti. Í Danmörku stefndi Kristján III að því að koma á nútímaríki í löndum sínum en máttaviðir þess voru miðstýrð stjórnsýsla með stöðluðu dómsvaldi, fastaher og lúthersk kirkja. Stofnkostnaður nútímaríkisins var mikill og hafði í för með sér gífurlega eignaupptöku og eignatilfærslu í öllum löndum hins danska ríkis.
Kirkjuordinanzían frá 1537 bylti hinni kaþólsku miðaldakirkju á Íslandi og ýmsum stofnunum hennar. Fyrirlesturinn mun fjalla um birtingarmyndir þessarar eignatilfærslu hérlendis og áhrif hennar á innviði íslensks samfélags, sem rekja má allt fram á 20. öld, einkum hvað varðar stöðu fátækra.
Vilborg Auður Ísleifsdóttir lauk BA prófi frá Háskóla Íslands í þýsku, latínu og sögu. Hún lauk MA prófi og doktorsprófi frá Johannes Gutenberg hákólanum í Mainz. Doktorsritgerð hennar fjallar um atburði 16. aldar á Íslandi og hefur komið út á þýsku og íslensku. Hún hefur starfað sem kennari, sjálfstætt starfandi fræðimaður og þýðandi.