Skip to main content

Þau Sverrir Jakobsson og Þórunn Jarla Valdimarsdóttir eru tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Sverrir er tilnefndur fyrir bókina Kristur. Saga hugmyndar, sem kemur út hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi, en hún fjallar um upphaf rótgróinna hugmynda um Krist, hvernig þær mótuðust og af hverju þær eru svo ólíkar. Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður hitti Sverri fyrir í haust.
Þórunn Jarla er tilnefnd fyrir bókina Skúli fógeti – faðir Reykjavíkur, sem gefin er út af JPV útgáfu, en þar fjallar hún um hinar mörgu hliðar Skúla Magnússonar og lýsir um leið samferðafólki hans og samtíð á 18. öld. Þess má geta að á vef Landsbókasafnsins má nálgast rafrænan viðauka bókarinnar, heimildaskrá og heimildabanka.  Viðtal við Þórunni birtist í bókmenntaþættinum Kiljunni.  Hér má sjá höfundinn afhenda Vigdísi Finnbogadóttur eintak af bókinni um Skúla í Fógetagarðinum í Aðalstræti:

Sagnfræðingarnir Bára Baldursdóttir og Þorgerður H. Þorvaldsdóttir hlutu tilnefningu til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis fyrir bókina Krullað og klippt. Aldarsaga háriðna á Íslandi, en hún er hluti af Safni til Iðnsögu Íslendinga. Í umsögn dómnefndar segir meðal annars: „Bókin er merkt framlag til iðnsögu Íslands en jafnframt einstakt tillegg til rannsókna á sviði kvenna- og kynjasögu á Íslandi. … Höfundarnir rýna í sagnahefð lokkanna og miðla hársögu Íslands í liprum texta og mögnuðum myndum bókar, sem er í senn fagur óður til hárklippara og rakara Íslands.“ Bókin er gefin út af Hinu íslenska bókmenntafélagi.
Loks hafnaði bók Kristínar Svövu Tómasdóttur, Stund klámsins. Klám á Íslandi á tímum kynlífsbyltingarinnar í öðru sæti í flokki fræði- og handbóka í verðlaunavali bóksala sem kynnt var í bókmenntaþættinum Kiljunni.