Skip to main content

Fyrirlestri Láru Magnúsardóttur sem halda átti 1. desember var frestað vegna veðurs. Lára mun í staðinn flytja fyrirlestur sinn þriðjudaginn 5. janúar 2016 kl. 12:05, en fyrirlestradagskrá vormisseris hefst tveimur vikum síðar, 19. janúar.
Lára Magnúsardóttir flytur hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands þriðjudaginn 5. janúar 2016 sem nefnist „Ekkja elur dreng, sögusagnir kvikna um faðerni: Hvað þýða heimildirnar?“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Um margra alda skeið var Íslendingum skylt að skrifta fyrir syndir og brot á lögum um kristni og taka sakramenti reglulega. Embættismönnum kirkju var skylt að áminna þá sem urðu uppvísir að brotum en skriftuðu ekki, um að opinber bannsetning væri yfirvofandi ef  skriftirnar drægjust fram yfir gefinn viðmiðunartíma. Samkvæmt lögum voru bannsettir framseldir til veraldlegra yfirvalda og þau refsuðu samkvæmt eigin aðferðum og var þá yfirvofandi strangur dómur, jafnvel slaverí eða útlegð. Undirstaða slíkra málaferla var skylda til að taka sakramenti sem var innleidd árið 1275 og grunnatriði málsmeðferðar voru eins á miðöldum og eftir siðaskipti.
Málaferli af þessum toga gátu verið langdregin, því tímafrestir voru innbyggðir í réttarkerfið, en jafnframt gátu margir aðilar dregist inn í málaferlin. Miklar heimildir eru til um málarekstur af þessu tagi að minnsta kosti fram til loka 18. aldar. Talsvert hefur verið prentað og hluti heimildanna er því vel þekktur en fjölmargt er aðeins til í handritum. Rannsóknir sem Lára vinnur að miða að því að greina heimildir um saksókn fyrir brot á andlegum lögum sem sérstakan heimildaflokk og lýsa einkennum hans í því skyni að heimildirnar nýtist til fjölbreyttra rannsókna.
Eitt af því sem einkennir heimildaflokkinn er að málareksturinn snýst um karla og konur sem eru hvorki fulltrúar tiltekins hóps eða stéttar og varða atvik sem hvergi er annars getið í heimildum, svo sem ástarlíf. Heimildaflokkurinn felur því í sér einstakar upplýsingar um fortíðina. Annað einkenni er að málsaðilar hafa áhrif á framvindu málsins, og þar með heimildamyndun, því tregða sakborningsins til að skrifta er eina ástæða málaferlanna; engar heimildir urðu til í þeim tilvikum sem fólk skriftaði eins og lög gerðu ráð fyrir. Þess vegna má ætla að heimildirnar séu alltaf vitnisburður um afstöðu sakbornings til einhverra hluta.
Þó liggur engan veginn ljóst fyrir hvaða afstaða það var sem réði því að sakborningur kaus að þrjóskast við að skrifta „út í bannið“, en gera þarf ráð fyrir því að hver og einn hafi haft sínar ástæður. Í fyrirlestrinum eru heimildir um eitt slíkt mál kynntar með því að rekja mál ekkju sem neitaði að feðra barn sem hún ól á 8. áratug 17. aldar, afskipti sveitunga hennar af því og afleiðingar sem það hafði fyrir sóknarprestinn hennar, sem var ef til vill faðirinn, en þó kannski ekki.
Lára Magnúsardóttir er sagnfræðingur og forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Norðurlandi vestra.