Skip to main content

Þriðjudaginn 15. desember flytur Margrét Gunnarsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Konur í karlaheimi – sendibréf embættismanna 18. og 19. aldar sem heimildir um kynjasögu“. Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands, en hádegisfyrirlestraröðin er skipulögð í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Yfirskrift fyrirlestrarraðar Sagnfræðingafélagsins haustið 2015 er „Heimildir um konur/konur í heimildum“. Í fyrirlestri Margrétar Gunnarsdóttur verður gerð tilraun til að varpa ljósi á „karla“-heimildir, þ.e.a.s. sendibréf á milli embættismanna sem forvitnilegan heimildaflokk er nýta má í kynjasögulegum rannsóknum. Mun meira er varðveitt af sendibréfum með hendi karlmanna en kvenna. Sendibréf embættis- og menntamanna veita ekki aðeins ómetanlegar upplýsingar um viðhorf og hugmyndir karlmanna og hinn svokallaða „pólitíska karlaheim“ samtímans, heldur einnig hversdagslegar áhyggjur, menntun barna, heimilishagi í síbreytilegum myndum, stöðu vinnuhjúa, verksvið kvenna, klæðaburð, hjúskaparmál og svo mætti lengi telja. Þannig bregða embættismennirnir í skrifum sínum stundum óvæntri birtu á kvenfólk samtíðarinnar, einstakar konur, samfélagsvaldssvið kynjanna og kvennaheiminn. Embættismannabréfin sýna að kvenna- og karlaveröldin er samofnari en ætla mætti í fyrstu.
Margrét Gunnarsdóttir er doktorsnemi í sagnfræði við Háskóla Íslands. Doktorsrannsókn hennar fjallar um stjórnmálasögu Íslands á tímabilinu frá því um 1780 til 1840. Grundvallarheimildir rannsóknarinnar eru sendibréf íslenskra embættismanna á ofangreindu tímabili.