Skip to main content

Þriðjudaginn 6. mars flytur Arnþór Gunnarsson erindið „Reykjavíkurflugvöllur. Saga flugvallarmálsins.“ Fyrirlesturinn hefst kl. 12:05 og fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Þetta er fjórði fyrirlestur vormisseris í röð fyrirlestra sem Sagnfræðingafélag Íslands skipuleggur í samvinnu við Þjóðminjasafnið.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um langvinnar deilur um staðsetningu og starfsemi Reykjavíkurflugvallar allt frá því að Bretar gerðu flugvöllinn á árum síðari heimsstyrjaldar. Deilurnar snúast meðal annars um ólíka hagsmuni höfuðborgar og landsbyggðar, skipulagsmál og flugtæknileg atriði, auk þess sem pólitík kemur mikið við sögu. Ætlunin er að varpa nýju og skýrara ljósi á ýmsa þætti málsins, meðal annars áhrif flugvallarins á þróun miðbæjarins. Að lokum verður vikið að stöðu flugvallarmálsins í dag og spurt, í ljósi sögunnar, hvort raunhæf lausn sé í sjónmáli.
Arnþór Gunnarsson er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Hann er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og MS-próf í ferðamálafræði frá sama skóla. Arnþór hefur ritað greinar og bækur um söguleg efni, m.a. Sögu Hafnar í Hornafirði (1997 og 2000), Guðna í Sunnu. Endurminningar og uppgjör (2006) ogLífæðina/Lifeline (2017) ásamt portúgalska ljósmyndaranum Pepe Brix. Á næstu vikum kemur út eftir Arnþór ritið Saga flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi, sem Isavia gefur út.