Skip to main content

Á morgun þriðjudag mun Björn Reynir Halldórsson flytja erindi sem kallast „Gervasoni-málið. Viðhorf stjórnvalda og almennings til hælisleitanda“. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestrarröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Nýjar rannsóknir í sagnfræði“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12:05.
Í lýsingu á erindinu segir:
Árið 1980 sótti Frakkinn Patrick Gervasoni um pólitískt hæli á Íslandi á grundvelli yfirvorfandi fangelsisdóms fyrir að neita að gegna herþjónustu. Umsókninni var hafnað en skiptar skoðanir voru um ákvörðunina og hatrammar deilur spunnust um málið. Í fyrirlestrinum verður lögð megináhersla á að greina frá hvernig meðferð umsókn um pólitískt hæli fékk á þessum tíma, hversu vel íslensk stjórnsýsla var í stakk búin til að takast á við málið og hvað réði mestu um ákvörðunina. Að auki verður fjallað um deiluna í samfélaginu og sjónarmið beggja aðila greind. Loks verður rakið hvernig óstöðugt stjórnmálaástand á Íslandi hafði áhrif á framgang og lausn málsins.
Allir velkomnir!