Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, þann 11. febrúar, mun Óðinn Melsted flytja erindi sem kallast: „Hvað er umhverfissagnfræði? Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina „Nýjustu rannsóknir í sagnfræði.“ Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega klukkan 12.05.

Í lýsingu á erindinu segir:
Umhverfissagan (e. environmental history) hefur notið aukinna vinsælda á undanförnum áratugum, en er þó eftir sem áður jaðargrein í fræðunum. Á meðan fræðimenn úr ýmsum áttum hafa lagt áherslu á tengsl manns og umhverfis hefur reynst erfitt að samræma umhverfis- og mannkynssögu. Í erindinu verður fjallað um eðli, tilgang og gagn umhverfissagnfræðinnar og þá sérstaklega í íslenskri sagnfræði. Metið verður það sem gert hefur verið og lagt til hvað bæta mætti. Því til stuðnings verður greint frá niðurstöðum eigin rannsókna á afleiðingum svokallaðra Skaftárelda 1783–1784, dæmigerðum atburði Íslandssögunnar um tengsl manns og umhverfis.