Næstkomandi þriðjudag, þann 7. október, halda Hilmar Magnússon og Íris Ellenberger hádegisfyrirlestra á vegum Sagnfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni „Að skrifa eigin sögu. Sagnfræði og hinsegin saga“. Fyrirlestrarnir fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefjast kl. 12:05.
Saga hinsegin fólks hefur ekki verið áberandi í sögubókum Íslendinga og henni hefur lítið verið sinnt af starfandi akademískum sagnfræðingum. Þau hafa hins vegar lagt rækt við sína sögu eftir eigin leiðum og safnað heimildum, skrifað greinar og haldið fyrirlestra. En hvaða álitamál geta komið upp þegar hópar velja að skrifa eigin sögu? Hvers konar söguskoðun birtist í skrifum þeirra? Hverjir eru kostir og gallar þess að skrifa eigin sögu? Á hvaða hátt tengjast slík skrif hefðum akademískrar sagnfræði?
Hilmar Magnússon er formaður Samtakanna ´78. Hann starfar einnig sem alþjóðafulltrúi á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara í Reykjavík. Hilmar er með MA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Háskóla Íslands og BA-gráðu í arkitektúr frá Arkitektskolen i Aarhus. Íris Ellenberger útskrifaðist með doktorspróf í sagnfræði frá Háskóla Íslands síðastliðið vor, en doktorsritgerð hennar fjallar um Dani á Íslandi á árunum 1900-1970. Hún hefur um árabil stundað hinsegin og feminískan aktívisma, skrifað fjölda greina og haldið fyrirlestra á því sviði. Um þessar mundir vinnur hún að því að taka viðtöl fyrir Evrópurannsókn á högum hinsegin fólks á Íslandi, Spáni, Frakklandi og Ítalíu.
Allir velkomnir!