Þriðjudaginn 3. nóvember flytja Sigríður Matthíasdóttir og Þorgerður Einarsdóttir hádegisfyrirlestur á vegum Sagnfræðingafélags Íslands sem nefnist „Ógiftar konur í hópi vesturfara“. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst kl. 12:05.
Konur voru fjölmennar í hópi íslenskra vesturfara. Þær hafa þó lítið verið rannsakaðar, og saga íslenskra Vesturfara hefur takmarkað verið skoðuð út frá kvenna- og kynjasögulegu sjónarhorni. Í þessum fyrirlestri verður m.a. sett fram sú tilgáta að ákveðinn hópur kvenna hafi „gleymst“, bæði í sögu vesturferða og íslenskri kvenna- og kynjasögu. Þetta eru einhleypar konur sem fluttust til Vesturheims. Þær eru ekki hluti íslenskrar embættismannastéttar en virðast heldur ekki tilheyra lægstu þjóðfélagshópum – voru t.d. ekki vinnukonur nema í stuttan tíma ævi sinnar ef þær voru það á annað borð. Þær eru þarna á milli og mikilvægt er að skilgreina í hverju staða þeirra felst. Því er haldið fram að þessar konur hafi haft ákveðið „kapítal“ svo að vísað sé til hugtaks franska félagsfræðingsins Pierre Bourdieu; þær hafi átt eitthvað undir sér, svo sem menntun, starfsframa eða ætt. Í norrænum rannsóknum hefur gjarnan verið byggt á heimildum eins og sendibréfum, æviminningum og mannfjöldaheimildum. Sú rannsókn á þessum konum sem hér er kynnt byggir m.a. á heimildaflokki sem segja má að hafi verið vannýttur í kvenna- og kynjasögu fram til þessa. Þetta eru minningargreinar og æviágrip á borð við þau sem má finna í Vestur-íslenskum æviskrám auk sagnaþátta og „alþýðlegs fróðleiks“ af ýmsum toga. Loks er stuðst við efni sem kemur beint frá afkomendum þeirra kvenna sem hér eru til skoðunar. Í erindinu verður þetta rætt með hliðsjón af dæmum af nokkrum konum.
Sigríður Matthíasdóttir er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur og Þorgerður Einarsdóttir er prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Fyrirlesturinn er hluti af verkefni um vesturferðir ógiftra kvenna 1870-1914 sem styrkt er af Rannís.