Skip to main content

Þriðjudagskvöldið 27. október efnir Sagnfræðingafélag Íslands til pallborðsumræðna í tengslum við heimildarmyndina Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, sem nú er sýnd í Bíó Paradís við Hverfisgötu. Sýning á myndinni hefst í Bíó Paradís kl. 20:00 og stendur yfir í um það bil klukkutíma. Að sýningunni lokinni stýrir Íris Cochran Lárusdóttir, sagnfræðingur og meistaranemi í lögfræði, umræðum þar sem taka þátt þær Alma Ómarsdóttir, leikstjóri myndarinnar Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum, Anna Pála Sverrisdóttir lögfræðingur, Bára Baldursdóttir sagnfræðingur og Guðrún Ögmundsdóttir félagsráðgjafi og tengiliður vistheimila. Aðgangseyrir er á myndina en pallborðsumræðurnar sem hefjast að sýningu lokinni eru öllum opnar.
Heimildarmyndin Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum hefur vakið mikla athygli undanfarið, en hún fjallar um afskipti stjórnvalda af samböndum kvenna í Reykjavík við erlenda hermenn á árum seinni heimsstyrjaldarinnar. Í pallborðsumræðunum verður rætt um mannréttindi og kvenréttindi, um þann ugg sem samgangur íslenskra kvenna við erlenda hermenn vakti, orsakir hans og afleiðingar, og um þá hugmynd sem fram hefur komið að framganga lögreglu og ríkisvalds við íslenskar konur á stríðsárunum verði rannsökuð, líkt og gert hefur verið í málum vistheimila ríkisins.