Skip to main content

Þann 20. janúar halda hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélags Íslands áfram. Í þetta sinn er yfirskriftin Hvað er andóf? og munu fræðimenn á sviði sagnfræði, lögfræði og heimspeki velta þessari spurningu fyrir sér fram á vor. Fjallað verður um andóf frá miðöldum og allt til dagsins í dag. Meðal efnis er andóf í akademíunni og gegn Atlantshafsbandalaginu, stjórnarbyltingin 1809 og tilraunir miðaldakirkjunnar til að hefta andóf auk þess sem eðli og þýðing andófs verður tekið til skoðunar.
Kjartan Ólafsson, fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans, opnar fyrirlestraröðina með erindi sínu Hetjudáð eða hermdarverk? þriðjudaginn 20. janúar kl. 12:05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands.
Í fyrri hluta erindisins verður fjallað um vissa atburði úr 20. aldar sögu nálægra Evrópuríkja og rætt þá meðal um annars hversu mjótt getur verið á munum þegar reynt er að flokka gerðir manna ýmist í hetjudáðir eða hermdarverk. Vakin verður athygli á með hvaða hætti framvinda sögunnar breytir stundum slíku mati og feykir til viðhorfum innan eins og sama hópsins.
Í síðari hluta fyrirlestursins verður fjallað um símahleranir íslenskra stjórnvalda hjá pólitískum andstæðingum þeirra á árunum 1949 – 1968.  Þá lítur Kjartan meðal annars á rökin sem viðkomandi ráðherra beitti er hann bað um nefndar hleranir, rætt nokkuð hverjir það voru sem fyrir hlerunum urðu og um störf sín við að upplýsa málið.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.