Skip to main content

Getur sagnfræði hjálpað fólki að grenna sig? Það var upphaflegt heiti næsta erindis í hádegisfundaröð félagsins sem verður haldinn þriðjudaginn 24. október, kl. 12:05-12:55, í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Fyrirlesari er Árni Daníel Júlíusson og vera má að upphaflegri spurningu verði svarað. Annars segir í útdrætti fyrirlestrar:
Að undanförnu hafa orðið hörð átök í sagnfræði hér heima og erlendis. Deilurnar hafa staðið um hvers eðlis sagnfræði sé. Gagnrýni hefur komið fram á svokallaðar stórsögur, sem stýri sagnfræðiumræðu og verði að hafna eigi greinin að geta dafnað.
Ein af þeim stórsögum sem gagnrýndar hafa verið eru sjálf vísindin. Í erindinu er fjallað um tvær tegundir sagnfræði, sem báðar gera kröfu til þess að teljast vísindaleg sagnfræði, en hvor á sinn hátt. Þetta eru empírísk saga og félagsvísindaleg saga. Fjallað er um tengsl þriðju tegundar sagnfræði, póstmódern sagnfræði, við þessi tvö eldri viðmið. Póstmódernisminn hafnar hugtökum eins og vísindum, skynsemi, framförum og tengslum texta við raunveruleikann.
Í erindinu verður fjallað um hvernig þetta nýja viðmið hefur stóreflt sagnfræðilega umræðu og blásið nýju lífi í greinina, þótt sagnfræðin hafi í raun hafnað hinum fræðilegu forsendum þess.
Árni Daníel Júlíusson er doktor í sagnfræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann vinnur nú að ritun íslenskrar landbúnaðarsögu.