Fyrsti kvöldfundur vetrarins verður haldin miðvikudaginn 30. september kl. 20:00 í húsi Sögufélags við Fischersund. Þar mun Dr. Hugh Reid halda fyrirlestur um áskriftalista við bókaútgáfu á átjándu öld. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.
Þótt ýmsir fræðimenn hafi rannsakað notkun áskriftarlista við bókaútgáfu á átjándu öld er margt enn ókannað í þessum efnum. Til dæmis mætti spyrja hvernig Alexander Pope tókst að ná undir sig fótum fjárhagslega með því að gefa út bækur á þennan hátt, eða hvers vegna fleiri konur gerðust áskrifendur að sumum verkum hans frekar en öðrum sem gefin voru út í áskrift. Hvað getur hlutfall kvenna, prestlærðra, kaupmanna eða annarra í hópi áskrifenda sagt okkur um það hvað hverjir lásu hverju sinni? Hvernig fór útgáfa bóka í gegnum áskrift fram? Hve viðamikil var sú aðferð í samanburði við annars konar bókaútgáfu? Hverjir gerðust áskrifendur að bókum og hvers vegna? Reynt verður að svara spurningum af þessu tagi í fyrirlestrinum.
Dr. Hugh Reid kennir við enskudeild Carleton University í Ottawa í Kanada. Hann lauk doktorsnámi frá University of London og hefur rannsakað ýmis svið bókmennta og sögu 18. aldar, einkum bókaútgáfu og rithöfundana Joseph Warton og Thomas Warton, eldri og yngri.