Skip to main content

Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins halda áfram þriðjudaginn 23. október. Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðingur, spyr Hvað er Evrópa – hugmynd, álfa, ríkjasamband?
Í opinberri umræðu vísar hugtakið Evrópa æ oftar til Evrópusambandsins, á sama hátt og þegar menn segja Ameríka meina þeir gjarnan Bandaríki Norður-Ameríku. Í flestum tilvikum breytir ekki miklu hvernig hugtök sem þessi eru notuð, en þó getur slík hugtakanotkun stundum haft mjög ákveðna pólitíska þýðingu. Miklar umræður hafa þannig orðið um hugsanlega aðild Tyrklands að Evrópusambandinu og þá velta menn fyrir sér hvort Tyrkir séu raunverulega Evrópuþjóð eða ekki. Slíkt leiðir hugann að því hvað Evrópa er og hvernig á að skilgreina hvað gerir þjóð að Evrópuþjóð eða einstakling að Evrópubúa. Er hér um landfræðileg hugtök að ræða og tilheyrir Ísland þá Evrópu? Eru þetta menningarleg hugtök og hvað er þá evrópsk menning? Eru þetta söguleg hugtök og hvernig rjúfum við þá sögu Evrópu frá sögu annarra heimshluta? Eru þetta pólitísk hugtök og hvað er þá evrópsk pólitík? Þessar spurningar snúast í raun um mótun sjálfsmynda/r og það hvort þær/hún eru skýrt afmörkuð fyrirbæri og eðlislæg eða sögulega mótuð og tilbúin?. Í fyrirlestrinum verður fjallað um þessar spurningar út frá yfirskrift fyrirlestraraðarinnar: Hvað er Evrópa?
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasalÞjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.