Skip to main content

Þriðjudaginn 6 nóvember verður fimmti hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins í haust haldinn. Sverrir Jakobsson sagnfræðingur fjallar um uppruna Evrópu.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um tilurð Evrópuhugtaksins, hvenær það fékk pólitískt mikilvægi og í hvaða sögulega samhengi það gerðist. Meðal þeirra sem koma við sögu eru Seifur, Mínos konungur, Heródótos, Nói og synir hans, heilagur Ágústín, Urban II páfi, Pius II páfi, Cervantes, Richelieau kardínáli, Samuel Purchas, Montesqueiu og Voltaire. Framlag þessara karla til sköpunar Evrópu og orðræða um þetta fyrirbæri fram á 18. öld verður vegin og metin á 40 mínútum en að lokum verður vikið að evrósentrískri heimsmynd 19. aldar og stöðu Evrópu í nútímanum. Hvaða máli skiptir saga umræðunnar um Evrópu fyrir sjálfsmynd Evrópumanna nú á dögum?
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.