Þriðjudaginn 12. febrúar flytur Unnur María Bergsveinsdóttir sagnfræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands. Unnur María ræðir um varðveislu munnlegra heimilda og ber fyrirlesturinn heitið Hvað er að heyra?. Unnur María er verkefnastjóri hjá Miðstöð munnlegrar sögu.
Munnleg saga hefur í seinni tíð hlotið fulla viðurkenningu sem sagnfræðileg aðferð og nýtur sívaxandi vinsælda meðal þeirra sem fást við samtímasögu. Enn sem komið er er bein íhlutun fræðimannsins í tilurð þeirrar heimilda sem hann fæst við þó sterkt einkenni aðferðarinnar, sér í lagi hér á Íslandi. Þetta má að miklu leyti rekja til þeirrar staðreyndar að varðveisla munnlegra heimilda einkennist enn í dag, hérlendis sem erlendis, af bæði óvissu hvað verklagi viðvíkur og skorti á samræðu um ýmis grunnatriði. Þetta veldur því að munnlegar heimildir eru í mörgum tilfellum lítt aðgengilegar öðrum en þeim sem þær skópu. Umfjöllunarefni erindisins eru þær spurningar sem varðveisla munnlegra heimilda vekur auk þess sem skyggnst verður í geymslur íslenskra safna og spurt, hvað er að heyra?
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.