Næstkomandi þriðjudag, 12. október, heldur Björg Thorarensen erindi sitt Hvað eru stjórnlög í hádegisfyrirlestraröðinni Hvað eru lög?
Með stjórnlögum er almennt átt við lög sem ríki setja sér um grundvallarreglur varðandi skipulag og æðstu stjórn ríkisins og valdmörk þeirra sem fara með ríkisvald – oftast er þeim safnað saman í lagabálk sem kallaður er stjórnarskrá eða grundvallarlög. Um setningarhátt stjórnlaga og stöðu þeirra í lagakerfinu gilda önnur sjónarmið en eiga við um önnur lög ríkisins. Þar má fyrst nefna að í lýðræðislegu skipulagi hafa stjórnlög nánari tengsl við þjóðina en á við um almenn lög sem löggjafinn setur. Þannig er vísað til þess að þjóðin sjálf sé stjórnarskrárgjafinn, frá henni sé sprottið valdið sem handhöfum ríkisvaldsins er falið að fara með í hennar umboði. Af þeirri ástæðu er algengt að í stjórnlögum sé mælt fyrir um að þjóðin skuli taka beina og milliliðalausa afstöðu til setningar þeirra eða breytinga á þeim. Vegna hins sérstaka eðlis stjórnlaga sem leggja grunninn að störfum valdhafanna og setja þeim ákveðin mörk í samskiptum við borgarana gilda flóknari reglur um breytingar á þeim en öðrum lögum. Þannig er spornað við því að grunnurinn að stjórnskipulaginu og réttindavernd borgara verði háður pólitískum dægursveiflum.
Í fyrirlestri sínum mun Björg fjalla um eðli stjórnlaga út frá þessum megineinkennum, en einnig nánar um efni slíkra laga og þá sérstaklega hvað einkennir góð stjórnlög. Lagt verður mat á hvernig íslensk stjórnlög sem bundin eru í lýðveldisstjórnarskrána frá 1944 falla að þeim hugmyndum og hvers vegna tilraunir til að endurskoða nokkra lykilþætti hennar hafa ekki borið árangur. Þjóðin stendur nú frammi fyrir verkefni sem á sér ekki hliðstæðu í öðrum löndum, að koma saman á þjóðfundi og síðan að kjósa til stjórnlagaþings sem ætlað er að endurskoða stjórnarskrána. Björg mun leitast við að svara þeirri spurningu hvort þessi aðferð sé líkleg til að treysta tengsl stjórnarskrárinnar við þjóðina og skapa sátt um þau grunngildi og undirstöður sem íslenskt samfélag hvílir á.
Sem fyrr er fyrirlesturinn í Þjóðminjasafni Íslands og hefst kl. 12.05. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.