Skip to main content

Skúli Sæland sagnfræðingur mun fjalla um viðreisn Skálholts á 20. öld  í fyrirlestri í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands, nk. þriðjudag þann 20. október. Um aldamótin 1900 var Skálholtskirkja í slæmu ásigkomulagi og þótt ætlunin væri að vígja bæði biskup og vígslubiskup þar tæpum áratug síðar var það ekki mögulegt vegna ástands staðarins. Í fyrirlestrinum verður farið yfir hvernig viðhorf landsmanna breytist gagnvart bágu ástandi Skálholts er líður á öldina þar til Skálholtsstaður fær stimpilinn þjóðarskömm. Skoðuð verður umræðan um Skálholt og deilur um viðreisnarhugmyndir sem komu fram og ollu þrátefli á þingi og innan kirkjunnar sem leystist ekki fyrr en Sigurbjörn Einarsson og félagar sóttu stuðning beint til almennings líkt og Eva Joly gerði við upphaf rannsóknar bankahrunsins.
Skúli lauk B.A. prófi í sagnfræði árið 1991 og stundar nú nám í Hagnýtri menningarmiðlun og safnafræðum og er rannsókn hans á endurreisn Skálholts hluti af MA-verkefni hans.
Sem fyrr hefst fundurinn kl. 12.05 í Þjóðminjasafninu. Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.