Skip to main content

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands verður haldinn í húsi Sögufélags í Fischersundi laugardaginn 22. mars og hefst hann kl. 16:30. Áður en gengið verður til fomlegra aðalfundarstarfa mun Friðrik Skúlason tölvu- og ættfræðingur flytja erindi um ættfræðigrunninn Íslendingabók sem opnaður var á netinu nýlega. Friðrik mun reifa þá möguleika sem gagnagrunnur af þessu tagi getur opnað þeim fræðimönnum sem fást við liðna tíð og jafnframt leita eftir hugmyndum frá fundarmönnum um notkun grunnsins.
Að loknu erindi Friðriks og umræðum verður gert stutt hlé áður en gengið verður til formlegra aðalfundarstarfa. Samkvæmt lögum félagsins skal dagskrá aðalfundar vera svohljóðandi:
* Ársskýrsla stjórnar kynnt og lögð fram til samþykktar.
* Endurskoðaðir ársreikningar félagsins kynntir og lagðir fram til samþykktar.
* Lagabreytingar.
* Kjör stjórnar. Kjör tveggja endurskoðenda reikninga og tveggja fulltrúa í Landsnefnd íslenskra sagnfræðinga til eins árs.
* Ákvörðun árgjalds fyrir næsta starfsár.
* Önnur mál.
Engar tillögur liggja fyrir um breytingar á lögum félagsins og því fellur þriðji liður dagskrár niður.
Að fundi loknum, líklega um kl. 18:30, verður gengið til kvöldverðar á veitingastaðnum Horninu. Boðið verður upp á hópmatseðil sem samanstendur af léttsteiktu lambafille með sólþurrkuðum tómötum og kryddbökuðum kartöflum og súkkulaðiköku með vanillukremi í eftirrétt og kostar hann aðeins 3.100 kr. Þeir sem ekki hafa áhuga á þessum rétti geta að sjálfsögðu pantað af matseðli hússins að vild. Vinsamlega látið Davíð Ólafsson vita ef þið ætlið í matinn (davidol@akademia.is eða sími 8456573) í síðasta lagi miðvikudaginn 19. mars. Athugið að þeir sem ekki komast á fundinn eru að sjálfsögðu velkomnir í matinn. Fjölmennum!