Skip to main content

Þriðjudaginn 1. apríl flytur Stefán Ólafsson þjóðfélagsfræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Reykjavík frá alþjóðlegum sjónarhóli“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00.
Í fyrirlestrinum er fjallað um stöðu og einkenni Reykjavíkur í samanburði við ýmsar erlendar borgir. Í fyrstu verða dregin fram sérkenni Reykjavíkur sem móta þróun borgarinnar, einkum atriði er tengjast legu, lýðfræði, atvinnumálum, stjórnmálum, skipulagsmálum, menningu og lífsháttum. Meginspurningin er þessi: hvernig borg er Reykjavík? Í seinni hluta erindisins verður fjallað um stöðu og möguleika Reykjavíkur með tilliti til þeirra breytinga sem eru að ganga yfir heiminn, einkum framþróun hnattvæðingar og þekkingarhagkerfis. Með hliðsjón af nýlegum kenningum um breytta stöðu borga í þessu umhverfi verður spurt um grundvöll framþróunar í Reykjavík á næstu áratugum.
Stefán Ólafsson lauk MA-prófi í þjóðfélagsfræði frá Háskólanum í Edinburgh í Skotlandi og doktorsprófi frá Háskólanum í Oxford í Englandi. Hann hefur starfað sem prófessor við Háskóla Íslands frá 1980 og var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ frá því hún var sett á legg árið 1985 til 1999. Hann var ráðinn forstöðumaður Borgarfræðaseturs þegar það var stofnsett árið 2001.