Skip to main content

Sagnfræðingafélag Íslands og Félag þjóðfræðinga á Íslandi áætla að halda næstu landsbyggðaráðstefnu sína á Suðausturlandi; í Suðursveit og á Höfn
Hornafirði. Ráðstefnan verður haldin í samvinnu við Fræðasetur Háskóla Íslands á Höfn og ReykjavíkurAkademíuna, helgina 21.-23. maí.
Fyrirsögn ráðstefnunnar er að þessu sinni UNDIR HORNAFJARÐARMÁNA og áhersla verður lögð á samspil mannlífs, menningar og náttúru á Suðausturlandi. Óskað er eftir erindum á sviði hug- og félagsvísinda sem falla að þessu efni. Tillögur að erindum sendist til Írisar Ellenberger, formanns Sagnfræðingafélagsins, netfang irisel@hi.is og Soffíu Auðar Birgisdóttur, sérfræðings á Háskólasetrinu á Höfn, netfang: soffiab@hi.is, fyrir 15. febrúar. Nánari upplýsingar má einnig fá í síma: 8614832 (Íris) og 4708042 eða 8482003 (Soffía Auður).
Markmiðið með landsbyggðaráðstefnunum er m.a. að hlúa að staðbundnum rannsóknum og fræðastörfum á landsbyggðinni og gefa fólki kost á að miðla
þeim rannsóknum sem unnar eru á sviði hug- og félagsvísinda á landsvísu. Ávallt er leitast við að hafa ráðstefnurnar þverfaglegar og fá fyrirlesara
af ólíkum fræðasviðum auk heimamanna á hverju svæði fyrir sig. Ráðstefnuhaldinu er einnig ætlað að vekja áhuga fræðimanna af höfuðborgarsvæðinu á einstökum svæðum landsbyggðarinnar og taka fyrir efni sem eru knýjandi í fræðilegri umræðu. Þessar ráðstefnur hafa verið mjög fjölsóttar af fræðimönnum sem og stúdentum.