Skip to main content

Úlfar Bragason prófessor flytur erindið „Útlent vald oss yfir dynur – Ísland hefur jarl!“ Eftirmæli Gissurar Þorvaldssonarþriðjudaginn 2. febrúar kl. 12.05 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélagsins sem ber yfirskriftina Hvað er dómur sögunnar?
Í lýsingu á erindinu segir:
Í bók sinni um Gissur jarl (1966) sagði Ólafur Hansson: „Það mun hafa verið hin almenna skoðun hér á landi í lok síðustu aldar og fram eftir þessari, að Gissur væri eitt hið versta illmenni, sem uppi hefði verið hér á landi“(145). Ólafur benti á að þessi dómur byggðist á þjóðernislegri söguskoðun 19. aldar og ætti sér ekki nema litla stoð í heimildum. Niðurstaða hans var sú að þess væri að vænta „að mat Íslendinga á Gissuri jarli verði í framtíðinni hlutlægara og ástríðulausra en það var um langan aldur“ (149).
Síðan Ólafur skrifaði bók sína hafa ýmir fjallað um sögu 13. aldar – bæði sagnfræðingar og rithöfundar. En hefur dómur sögunnar yfir Gissuri breyst? Er ekki enn í almennri umræðu um utanríkismál vísað til endaloka goðaveldisins og þau tekin sem dæmi um hvernig slæmir synir og dætur eigi ekki að svíka móður sína? Er ekki enn verið að hrópa landráðamenn á götum og í þingsölum? Er þá ekki beint og óbeint verið að vísa til hinnar hefðbundu stórsögu um glæsta gullöld sem rann sitt skeið vegna svikráða óþjóðhollra manna? Gerð voru hróp að Jóhönnu Sigurðardóttur og öðrum ráðherra á Austurvelli 17. júní og þeir vændir um svik.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um hvort dómur sögunnar yfir Gissuri Þorvaldssyni hafi breyst í sagnaritun síðustu 50 ára, hvort rithöfundar sem fjallað hafi um 13. öldina hafi tekið mið af nýjum sagnfræðirannsóknum eða sitji enn við sinn þjóðerniskeip og hvort almenningur sitji fastur í stórsögu sjálfsstæðisbaráttunnar svokölluðu? Verður Jóhönnu Sigurðardóttur að ósk sinni að sá kafli í sögu Íslendinga sem hún telur að nú sé hafinn verði stuttur? Hver verður dómur sögunnar yfir hlutverki hennar í þeim kafla?
Sem fyrr er aðgangur ókeypis og öllum heimill.