Sagnfræðingafélag Íslands kallar eftir erindum á hádegisfyrirlestrum félagsins á vormisseri 2016. Þemað í þetta sinn er „Fjöldahreyfingar“.
Fjöldahreyfingar hafa gegnt mikilvægu hlutverki við mótun íslensks samfélags. Á næsta ári, 2016, eru liðin 100 ár frá stofnun Alþýðusambands Íslands. Af því tilefni hefur Sagnfræðingafélag Íslands ákveðið að fyrirlestraröð vormisseris 2016 tengist málefnum fjöldahreyfinga frá öndverðu til samtímans. Við leitum eftir erindum sem varða verkalýðshreyfinguna og aðrar fjöldahreyfingar, bindindishreyfinguna, kvennahreyfinguna, ungmennafélagshreyfinguna, starf þeirra, tengsl innbyrðis, við stjórnmál, velferðarsamfélag, jafnrétti, umhverfi eða aðra mikilvæga samfélagsþætti. Áhugasamir snúi sér til Vilhelms Vilhelmssonar í netfangið viv13@hi.is
Tillögur að erindum skulu innihalda titil og/eða stutta efnislýsingu og sendast á ofangreint netfang.
Skilafrestur tillagna er 15. október.