Erindi Unnar Maríu Bergsveinsdóttur „Loksins ertu sexí! Íslenskur menningararfur í meðförum pönkara“ verður flutt þriðjudaginn 14. apríl kl. 12:05 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands. Erindið er hluti af hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands sem ber yfirskriftina Hvað er andóf?
Í lýsingu á erindinu segir:
Menningarkimar hverskonar hafa löngum verið vettvangur andófs. Hverskonar samfélagslegar sviftingar og breytingar á valdajafnvægi má nýta til þess að víkka út þær glufur sem þegar eru til staðar og til þess að laða að nýja þátttakendur. Á slíkum stundum eru fyrstu viðbrögð valdhafanna jafnan virkar tilraunir til þess að draga, í gegnum orðræðu, úr trúverðugleika þeirrar hugmyndafræði sem menningarkiminn stendur fyrir.
Pönkið kom til Íslands á þeim tíma erÍsland var í þann veg að öðlast fullan aðgang að erlendri dægurmenningu. Í fjölmiðlaumræðu þess tíma er auðvelt að greina klassísk átök milli handhafa hins ríkjandi menningarforræðis og þeirra sem kröfðust þess að fá að taka þátt í endurskilgreiningu hins góða smekks. Með því að greina þá umræðu koma í ljós ýmsar áhugaverðar hliðar á þeim átökum sem gátu af sér íslenska pönkið, sérstæða blöndu af þjóðerniskennd og höfnunar hefðbundinnar íslenskrar sjáflsmyndar.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.