Skip to main content

Aðalfundur Sagnfræðingafélags Íslands var haldinn fimmtudagskvöldið 16. mars 2023. Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum hélt Flosi Þorgeirsson erindi um sagnfræðistörf í markaðssamfélagi.

Markús Þórhallsson formaður flutti skýrslu stjórnar. Á síðasta starfsári hélt félagið marga og fjölbreytta fundi, sendi frá sér ályktanir og skilaði inn umsögnum um lagafrumvörp. Ragnhildur Anna Kjartansdóttir gjaldkeri fór yfir fjármál félagsins. Tekjur jukust um tæpar 50 þúsund krónur og útgjöld minnkuðu um andvirði nær þúsund króna á dag allan ársins hring. 182 þúsund króna halli varð á rekstrinum í ár en fjárhagur félagsins er samt sterkur, með rúma eina og hálfa milljón króna inni á reikningum.

Markús Þórhallsson lét af formennsku eftir sex ára setu í stjórn félagins. Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Brynjólfur Þór Guðmundsson hurfu einnig úr stjórn.

Arnór Gunnar Gunnarsson var einn í framboði til formanns og því réttkjörinn. Kristbjörn Helgi Björnsson var endurkjörinn í stjórn. Þrjú komu ný inn í stjórnina; Anna Agnarsdóttir, Leifur Reynisson og Valur Gunnarsson. Ása Ester Sigurðardóttir og Ragnhildur Anna Kjartansdóttir verða áfram í stjórn hafandi setið hálft kjörtímabil sem þær voru kosnar til á síðasta aðalfundi.

Nokkrar breytingar voru gerðar á lögum félagsins; meðal annars um hvernig staðið skuli að auglýsingu aðalfundar og hvaða embætti skuli vera í stjórn. Staða vefstjóra var felld niður og ritstjóri fréttabréfs verður ritstjóri miðla. Meðstjórnendum fjölgar úr einum í tvo.

Flosi Þorgeirsson, sagnfræðingur og annar stjórnenda hlaðvarpsins Draugar fortíðar, hélt erindi aðalfundar. Hann talaði um hvort sagnfræðin mætti vera skemmtileg og hvernig sagnfræðingar gætu aflað sér tekna í markaðssamfélagi utan akademískra starfa. Hann lýsti einnig hryggð sinni yfir minnkandi hlut sögukennslu í skólum og lokun Borgarskjalasafns.
Fráfarandi og viðtakandi formaður.