Steindór J. Erlingsson vísindasagnfræðingur flytur á fimmtudaginn kemur, 7. apríl, fyrirlestur með þessu heiti í húsi Sögufélags við Fischersund í Reykjavík. Fyrirlesturinn hefst kl. 20:00 og er ókeypis og öllum opinn. Léttar veitingar verða í boði. Allir áhugamenn um sögu og vísindi eru hvattir til að mæta!
Útdráttur erindis: Á tímabilinu 1880-1930 tókust upplýsingin, síð-rómantíkin og módernisminn á í heimi hugmyndanna. Þar með er ekki öll sagan sögð því á árabilinu 1895-1905 hrundi heimsmynd 19. aldar eðlisfræði með tilkomu skammtafræðinnar og afstæðiskenningarinnar. Nýja eðlisfræðin gróf undan hugmyndafræðilegum grundvelli upplýsingarinnar og átti þátt í að ýta einstaklingum í átt að hugmyndaheimi síð-rómantíkurinnar eða að módernismanum. Í erindinu hyggst ég gefa innsýn inn í þetta tímabil með því að fjalla um aðferða- og hugmyndafræðilega byltingu sem átti sér stað innan dýrafræðinnar undir lok nítjándu aldar, sem ber ýmis ummerki módernískrar heimspeki, með megin áherslu á togstreituna sem ríkti milli tveggja af helstu talsmönnum nýju dýrafræðinnar í Bretlandi í byrjun 3. áratugar síðustu aldar. Þeir sem hér um ræðir eru upplýsingarhugsuðurinn Julian Huxley (1887-1975) og módernistinn Lancelot Hogben (1895-1975).