Skip to main content

Sagnfræðingafélag Íslands boðar til fundar um tvær kvikmyndir sem sýndar hafa verið á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík að undanförnu: Der Untergang sem fjallar um síðustu daga Hitlers og liðsmanna hans í Berlín 1945 og Diarios de motocicleta sem greinir frá ferðalagi hins unga Ernestos „Che“ Guevara og vinar hans um Suður-Ameríku árið 1952. Báðar myndirnar hafa hlotið mikið lof en um leið hefur verið spurt hvort þær gefi raunsanna mynd af þeim einstaklingum og atburðum sem fjallað er um.
Gunnar Þór Bjarnason mun fjalla um Der Untergang. Hann er sagnfræðingur og kennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hann lauk BA-prófi í sagnfræði og þýsku frá Háskóla Íslands 1981 og stundaði framhaldsnám í Kiel í Þýskalandi í nokkur ár. Stefán Á. Guðmundsson ræðir um Diarios de motocicleta. Hann er stundakennari við Háskóla Íslands og Menntaskólann við Hamrahlíð, með MA-próf í menningarsögu Rómönsku Ameríku. Stefán kenndi námskeiðið „Che Guevara“ hjá Endurmenntun HÍ fyrr á þessu ári.
Fundurinn verður í Norræna húsinu, þriðjudaginn 26. apríl kl. 12:00-13:15. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.