Skip to main content

Hádegisfyrirlestur, Þjóðminjasafni Íslands, 7. nóvember, 12:05-12:55
Í fyrirlestrinum verður fjallað um munnlegar heimildir, sannleiksgildi þeirra og þá möguleika sem notkun þeirra felur í sér. Rætt verður um tengsl munnlegra heimilda við aðrar heimildir og hvernig þær aðferðafræðilegu spurningar, sem sagnfræðingurinn þarf að horfast í augu við þegar hann notar munnlegar heimildir, endurspegla þann vanda sem fræðigreinin sagnfræði þarf að glíma við á tímum sem fyrirlesari kýs að kenna við raunveruleikaþrá eða raunveruleikahungur.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um munnlegar heimildir út frá ýmsum sjónarhornum en lögð áhersla á hvernig munnlegar heimildir hafa skapað möguleika fyrir hina kúguðu, það er þá sem ekki hafa átt sterka rödd í ríkjandi orðræðu og þar með hefðbundinni söguritun, til að setja mark sitt á söguna.
Í umfjöllun um áhrifamátt ólíkra heimilda og miðlunarmöguleika þeirra verður beitt ýmsum aðferðum sem einnig tengjast miðlun efnis í fyrirlestrinum. Gestir í fyrirlestrarsal fá því bæði að hlusta á tónlist og upptökur af viðtölum, og virða fyrir sér, svo vísað sé til orða Walters Benjamin, hvernig „hið liðna birtist sem leiftur á stund hættunnar“ á ljósmyndum og í heimildakvikmyndum, á milli þess sem þeir hlýða á hinn hefðbundna fyrirlestur.
Sigrún Sigurðardóttir er með BA-próf í sagnfræði frá Háskóla Íslands og cand.mag.-próf í menningarfræði og menningarmiðlun frá Kaupmannahafnarháskóla. Hún starfar nú sem verkefnisstjóri undirbúningsnefndar að stofnun Miðstöðvar munnlegrar sögu sem er samstarfsverkefni Sagnfræðistofnunar HÍ, RIKK, KHÍ og Landsbókasafns Íslands. Sigrún er jafnframt fagstjóri fræðinámskeiða í Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands.
Nú í haust kom bók hennar Det traumatiske øjeblik, sem fjallar um ljósmyndir, minningar og söguvitund, út í Kaupmannahöfn. Sigrún hefur áður sent frá sér bókina Elskulega móðir mín, systir, bróðir, faðir og sonur og var annar aðalhöfundur bókarinnar Vor unga stétt. Verzlunarskóli Íslands í 100 ár, sem kom út á síðasta ári.