Þriðjudaginn 25. mars flytur Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir,doktorsnemi í sagnfræði við háskólann í Gautaborg og gestafræðimaður á Þjóðminjasafni Íslands, hádegisfyrirlesturinn Ólíkar hugmyndir um varðveislu fornminja á fyrri hluta nítjándu aldar.
Árið 1807 var Hinni konunglegu fornleifanefnd komið á fót í Kaupmannahöfn. Nefndinni var ætlað að friða fornleifar í ríkjum Danakonungs og safna forngripum til Fornnorræns safns sem staðsetja átti í höfuðstað ríkisins. Þó að meginorsök fyrir stofnun nefndarinnar hafi verið hröð eyðing fornminja í Danmörku í lok 18. aldar þá er hugmyndafræðilegur bakgrunnur rakinn til vaxandi áhuga á norrænni fornfræði og vaxandi áhrifa rómantísku stefnunnar í Danmörku. Fræðilegar tilraunir fornfræðinga til þess að varpa ljósi á sögulega þróun á forsögulegum tímum gengu nokkuð gegn rómantískum hugmyndum um andlegt samband við fortíð og forfeður. Þessi mismunandi nálgun í hugmyndum kom skýrt fram í sýninni á hvers vegna og hvernig átti að varðveita fornminjar og kristallast m.a. í samstarfi fornfræðingsins Finns Magnússon og hins rómantíska Jónasar Hallgrímssonar á árunum 1839-1842. Á ferðum Jónasar um Ísland skoðaði Jónas fornminjar fyrir Finn og sendi honum reglulega skýrslur til Kaupmannahafnar. Skýrslurnar nýtti Finnur í fræðilegum skrifum meðan að í dagbókum Jónasar og í smásögunni Hreiðars-hóll er að finna öllu rómantískri sýn á fornminjarnar.
Hádegisfyrirlestrar Sagnfræðingafélagsins fara fram í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins og standa frá klukkan 12.05 til klukkan 12.55. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.