Þriðjudaginn 5. nóvember heldur Ágústa Kristófersdóttir sagn- og listfræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Reykjavík – frá götum til bílastæða“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00.
Í fyrirlestrinum verður rætt um nokkra þætti í skipulagssögu Reykjavíkur frá tímabilinu 1930 til 1980 og verða þeir settir í alþjóðlegt samhengi. Fjögur hverfi borgarinnar verða tekin sem dæmi, Norðurmýrin og Breiðholtin þrjú, þ.e. Neðra- og Efra-Breiðholt ásamt Seljahverfi. Rætt verður um þær breytingar sem orðið hafa á skipulagsaðferðum á tímabilinu, en m.a. verður skoðað hvernig bílastæði hafa tekið við hlutverki götunnar í því að móta ásýnd borgarinnar.
Ágústa Kristófersdóttir lauk BA-prófi í sagnfræði frá HÍ árið 1998 og nam listfræði við háskólana í Stokkhólmi og Lundi 1996-1999. Frá árinu 2000 hefur hún starfað á Listasafni Reykjavíkur og m.a. lagt stund á rannsóknir í byggingarlistarsögu. Hún var sýningarstjóri sýningarinnar „Byggt yfir hugsjónir: Breiðholt frá hugmynd að veruleika“ í Listasafni Reykjavíkur vorið 2002.