Skip to main content

Þriðjudaginn 22. október heldur Sigríður Kristjánsdóttir skipulagsfræðingur fyrirlestur í hádegisfundaröð Sagnfræðingafélags Íslands sem haldin er í samstarfi við Borgarfræðasetur. Erindið nefnist „Þróun jaðarsvæða Reykjavíkur“. Fundurinn fer fram í Norræna húsinu og stendur frá kl. 12:05 til 13:00. Hann er opinn öllu áhugafólki um sögu og menningu.
Í fyrirlestrinum verður fjallað um formfræði borga (urban morphology), þ.e. rannsóknir á hinu efnislega formi borgarinnar og þeim hvötum sem liggja að baki mótun þess, notkun og þróun. Einkum verður horft til jaðarsvæða íborgum og leitað svara við spurningunni hvað felist í hugtakinu jaðarbelti (fringe belt). Rætt verður um þróunarferil slíkra svæða innan borgarlandslagsins og spurt hvernig og hvers vegna þau verði til. Í erindinu verða tekin dæmi frá Reykjavík og ljósi varpað á jaðarbelti borgarinnar, en ungur aldur hennar gerir það að verkum að auðvelt að rekja hvaðan hugmyndir um borgir og skipulagsmál bárust og hvaða áhrif þær höfðu á byggðina. Ljóst er t.a.m. að framan af gætti mikið evrópskra áhrifa en í seinni tíð hafa bandarísk áhrif orðið meira áberandi.
Sigríður Kristjánsdóttir er með BS-próf í landafræði frá HÍ, meistarapróf í skipulagsfræðum frá University of Washington í Seattle og vinnur nú að doktorsritgerð í skipulagsfræðum við University of Birmingham. Rannsóknir sínar vinnur hún við Borgarfræðasetur HÍ. Hún hefur sinnt ýmsum störfum tengdum kennslu og tölvukortagerð, m.a. verið stundakennari við HÍ.