Skip to main content

Ólöf Garðarsdóttir sagnfræðingur heldur fyrirlestur á opnum fundi Sagnfræðingafélags Íslands fimmtudaginn 17. október. Erindið nefnist „Á mörkum lífs og dauða. Ungbarnadauðinn á Íslandi 1770-1920“ og byggir hún það á doktorsritgerð sinni sem hún varði í júní síðastliðnum við háskólann í Umeå í Svíþjóð. Rannsóknin var liður í norrænu verkefni um þróun ungbarna- og barnadauða á Norðurlöndum á tímabilinu 1750-1950. Ritgerð Ólafar hefur komið út á prenti og nefnist Saving the Child. Regional, cultural and social aspects of the infant mortality decline in Iceland, 1770-1920. Fundurinn fer fram í húsi Sögufélags við Fischersund og hefst að venju kl. 20:30.
Í ritgerðinni fjallar Ólöf um þann mikilvæga árangur sem náðist í baráttunni við háan ungbarnadauða á Íslandi á síðari hluta 19. aldar. Fyrir þann tíma var ungbarnadauði hérlendis með því hæsta sem gerðist í Evrópu og um miðbik 19. aldar gátu aðeins um tveir af hverjum þremur nýburum á Íslandi vænst þess að lifa fyrsta afmælisdaginn sinn. Eftir 1870 lækkaði ungbarnadauði á Íslandi mjög ört og fljótlega eftir aldamótin 1900 var hann með því allra lægsta sem gerðist í heiminum.
Að baki hás ungbarnadauða á Íslandi liggja margþættar ástæður. Ekki fer þó á milli mála að meginástæðuna má rekja til þess að nýburar voru ýmist alls ekki lagðir á brjóst eða hafðir á brjósti í mjög skamman tíma. Á aðeins örfáum stöðum var brjóstagjöf almenn og þar var ungbarnadauði afar lágur á evrópskan mælikvarða. Hér er einkum um að ræða Þingeyjarsýslur og Reykjavík. Ólöf sýnir að á þessum stöðum voru menntaðar ljósmæður fleiri en annars staðar á landinu og margar þessara ljósmæðra höfðu menntast í Danmörku þar sem brjóstagjöf var mjög almenn.
Ólöf færir rök fyrir því að auknar lífslíkur nýbura á Íslandi megi að verulegu leyti þakka fjölgun menntaðra ljósmæðra. Ljósmæður sinntu sængurkonum í um hálfan mánuð eftir fæðingu og fræddu þær meðal annars um brjóstagjöf. Einnig eru leiddar að því líkur að aukinn áhugi á þjóðfélagsmálefnum og bætt menntun kvenna almennt eigi ríkan þátt í þeirri miklu lækkun ungbarnadauðans sem varð hér á síðari hluta 19. aldar og í upphafi þeirrar 20.
Undanfarinn áratug hefur Ólöf sinnt rannsóknum í félagssögu og liggja eftir hana allmargar greinar á því sviði. Aðstæður barna og unglinga hafa skipað mikilvægan sess í þeim.