Skip to main content

Fimmtudaginn 22. febrúar heldur Einar Már Guðmundsson erindi á kvöldfundi Sagnfræðingafélagsins sem hann nefnir „Saga og saga“. Fundurinn fer fram í húsi Sögufélags við Fischersund og hefst kl. 20:30.
Í erindi sínu mun hann velta fyrir sér muninum á „sagnfræði“ og „skáldskap“, m.a. með vísan til nýjustu verka sinna, bókanna „Fótspor á himnum“ og „Draumar á jörðu“. Í nýlegu viðtali í Degi (30. des.) fullyrti Einar Már: „[S]umar bækur eru þannig að við getum ekki hugsað okkur lífið án þeirra. Þannig verður skáldskapurinn með tímanum sannleikur, eins öfugsnúið og það kann nú að hljóma.“ Hann mun gera þennan „öfugsnúning“ að umtalsefni og einnig varpa fram þeirri spurningu, hvort sagnfræðirit séu í aðra röndina skáldsögur.
Það hlýtur að vera mikill fengur að því fyrir sagnfræðinga að fá einn helsta rithöfund þjóðarinnar á sinn fund til að reifa svona mikilvæg mál. Fólk er því hvatt til að merkja við þennan dag í dagatölunum sínum.