Annar hádegisfyrirlestur Sagnfræðingafélagsins á þessu ári, þriðjudaginn 23. janúar 2007, kl. 12:05-12:55 í fyrirlestrasal Þjóminjasafns Íslands. Aðgangur ókeypis og öllum heimill.
Af og til sprettur upp umræða um kanón í sagnfræði og sögukennslu enda hafa allir skoðun á því hver er nauðsynlegasta söguþekkingin. Þegar gerðar voru miklar breytingar á aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla fyrir nokkrum árum var töluvert rætt um hversu mikla sögu ætti að kenna í skólum og það umræðuefni er aftur komið á dagskrá nú þegar hugsanlega á að gera róttækar breytingar á námsskipan framhaldsskólanna. Með öðrum orðum, það gerist vissulega af og til að menn velta fyrir sér hvað eigi að kenna í sögu – eða hversu miklum tíma eigi að verja til þess en á hinn bóginn er afar sjaldan rætt um hvernig eigi að nota þann tíma, hvernig best sé að kenna sögu.
Um þetta verður fjallað í hádegisfyrirlestrinum enda illmögulegt að greina á milli þess sem kennt er og þeirra kennsluaðferða sem beitt er. Áhugavert er fyrir þá sem kenna sögu á öllum skólastigum – og aðra – að velta þessum tengslum fyrir sér.
Margrét Gestsdóttir er sögukennari við Fjölbrautaskólann við Ármúla og stundakennari í kennslufræði við Háskóla Íslands. Hún er í stjórn EUROCLIO, Evrópusamtaka sögukennara.