Skip to main content

Miðstöð munnlegrar sögu verður opnuð við hátíðlega athöfn í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni, Þjóðarbókhlöðu, föstudaginn 26. janúar. Athöfnin hefst kl. 15.00.
Miðstöðin mun beita sér fyrir söfnun, varðveislu, rannsóknum og miðlun á munnlegum heimildum sem snerta sögu lands og þjóðar. Munnleg saga notar hið talaða orð, frásagnir fólks af atburðum eða lífshlaupi sínu, til að afla þekkingar á fortíðinni. Munnlegar heimildir gefa okkur tækifæri til að nálgast söguna á nýjan og oft óvæntan hátt. Þær hafa t.d. verið notaðar til þess að gefa alþýðufólki rödd sem sjaldan heyrist í opinberum söguritum og eru því ákveðið mótvægi við hinar rituðu heimildir sem verða til í stofnunum samfélagins.
Við opnunina verður tekin í notkun vefsíða Miðstöðvar munnlegrar sögu. Slóðin er www.munnlegsaga.is. Þar verður í framtíðinni hægt að nálgast skrár og jafnvel hluta af hljóðritasafni Miðstöðvarinnar. Þar er einnig að finna ýmsar hagnýtar upplýsingar um munnlega sögu, tæknilegar leiðbeiningar, siðareglur og fleira sem hafa ber í huga þegar viðtöl eru tekin.
Að Miðstöð munnlegrar sögu standa þrjár rannsókna- og háskólastofnanir í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Þær eru Sagnfræðistofnun H.Í., Rannsóknarstofa í kvenna- og kynjafræðum við H.Í. og Kennaraháskóli Íslands.
Í tilefni af opnun Miðstöðvarinnar verður haldið norrænt málþing um munnlegar heimildir laugardaginn 27. janúar kl. 10.00–13.00. Meðal þátttakenda eru Lars Gaustad, formaður Alþjóðasamtaka hljóð- og myndsafna (IASA), Lauri Harvilahti, forstöðumaður Þjóðfræðasafns og safns munnlegra heimilda í Helsinki. og Britta Bjerrum Mortensen, fræðimaður við Dansk folkemindesamling í Kaupmannahöfn. Málþingi er haldið í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og fer fram á ensku.
Kl. 14:00 fer fram stofnfundur félags um rannsóknir og varðveislu á munnlegum menningararfi.
Í framhaldi af stofnfundinum verður málþing um notkun munnlegra heimilda á Íslandi kl. 15.00–17.30. Þátttakendur í málþinginu koma úr ýmsum fræðigreinum, svo sem sagnfræði, mannfræði og þjóðfræði. Málþingið er haldið í Odda 101 og fer fram á íslensku. Það er öllum opið.
Ýtarlega dagskrá beggja málþinganna má nálgast hér
Frekari upplýsingar veita:
Sigrún Sigurðardóttir, verkefnisstjóri, s. 525 5775, sigrunsig@bok.hi.is
Guðmundur Jónsson, prófessor í sagnfræði, 525 4208, gudmjons@hi.is