Skip to main content

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur hádegishluta fyrirlestraraðarinnar Hvað er (mis)notkun sögunnar? næstkomandi þriðjudag, 8. nóvember kl. 12.05 í Þjóðminjasafni Íslands, með erindinu „Söguskoðanir og söguskoðanir“.
Menn geta haft ólíkar söguskoðanir, en þeir mega ekki gera sig seka um sögufalsanir. Heiðarlegur ágreiningur getur verið um, hvernig skilja beri ýmsa viðburði sögunnar. Enn er til dæmis deilt um eðli frönsku stjórnarbyltingarinnar og orsakir heimsstyrjaldarinnar fyrri. Um sumt annað er hins vegar ekki deilt, til dæmis að helförin átti sér stað, nasistar reyndu að útrýma gyðingum. Ef því er afneitað, þá er það ekki talin söguskoðun, heldur sögufölsun, og liggur sums staðar jafnvel refsing að lögum við henni.
 
Í fyrirlestrinum verður rætt um, hvernig gera megi skynsamlegan greinarmun á söguskoðun og sögufölsun, og tekin dæmi úr sögu kommúnistahreyfingarinnar, jafnt hinnar alþjóðlegu og hinnar íslensku. Sérstaklega verður hugað að tveimur bókum og deilum um þær, Kæru félagar eftir Jón Ólafsson frá 1999 og Maó: Sagan sem aldrei var sögð eftir Jung Chang og John Halliday frá 2007.