Skip to main content

Nú er stutt stórra högga á milli því strax er komið að öðrum fyrirlestrinum í röðinni Hvað eru lög? Næsta þriðjudag, 28. september, flytur Ágúst Þór Árnason erindið Stjórnarskrá eða stefnuskrá?
Stjórnarskrár eins og við þekkjum þær í dag eru rétt rúmlega tvöhundruð ára gamalt fyrirbæri kennt við nútímann. Á þeim tíma sem liðinn er frá því að Bandaríkjamenn og Frakkar sömdu og samþykktu sögufræg gögn um mannréttindi og stjórnskipan undir lok átjándu aldar hefur margt verið rætt og ritað um eðli og innihald stjórnarskrár nútímans. Í kjölfar þessa frumkvæðis Bandaríkjamanna og Frakka hófst uppgangstímabil stjórnarskrárfestunnar (constitutionalism) sem varði fram yfir miðja 19. öld. Eftir veikburða tilraunir til að endurlífga og endurbæta þær hugmyndir sem lágu stjórnarskrárfestunni til grundvallar að lokinni heimstyrjöldinni fyrri lifði hún sitt versta niðurlægingatímabil með uppgangi alræðishyggju af ýmsum toga. Endurreisnartímabil stjórnarskrárfestunnar er oftast talið hefjast með samþykkt stjórnarskrár Sambandslýðveldisins Þýskalands í maí 1949 (das Grundgesetz) og líta má á samþykkt Mannréttindakafla Sameinuðu þjóðanna, 10. desember 1948, sem forleik þess sem á eftir kom.
Umræður og skrif um hugmyndafræði stjórnarskrárfestunnar hafa aldrei verið fyrirferðamikil á Íslandi og líklegt má telja að veigamesta ástæða þess hafi verið sú að krafan um stjórnarskrá og síðar stjórnarskráin sjálf var nýtt sem tæki í fullveldis- og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Í erindi sínu leitar Ágúst Þór Árnason svara við þeirri spurningu hvort þessi staðreynd hafi orðið til trafala við mótun eigin hugmynda um stjórnarskrá og stjórnskipun lýðveldisins Íslands. Ágúst veltir því einnig fyrir sér hver staðan sé í þessum málum á Íslandi í ljósi helst kenninga um hlutverk nútíma stjórnarskráa.
Sem fyrr hefst fyrirlesturinn kl. 12:05 í Þjóðminjasafni Íslands og er aðgangur ókeypis og öllum opinn.