Langþráð uppskeruhátíð sagnfræðinga verður haldin í húsakynnum Háskóla Íslands í Stakkahlíð dagana 19. til 21. maí. Þá verður Íslenska söguþingið haldið í fimmta sinn. Líkt og á fyrri söguþingum verður af nógu að taka. Yfir 30 málstofur eru á dagskrá auk erlendra heiðursfyrirlesara en þar að auki verður hátíðarkvöldverður og opin málstofa um heilbrigðissögu sem haldin er í tengslum við þingið.
Fyrsta Íslenska söguþingið var haldið árið 1997 og vakti mikla athygli. Páll Skúlason, þáverandi háskólarektor, sagði að aldrei áður hefði farið fram jafn víðtæk og fjölbreytt umræða um söguna. Síðan þá hefur þrisvar verið efnt til söguþings og nú er blásið í herlúðra sagnfræðinga í fimmta sinn. Íslenska söguþingið fór síðast fram árið 2012. Til stóð að fimmta söguþingið yrði haldið í maí í fyrra en þau áform urðu heimsfaraldrinum að bráð eins og svo margt annað. Nú kemur hins vegar ekkert í veg fyrir að sagnfræðingar og aðrir áhugamenn um sögu geti komið saman; hlýtt á fyrirlestra, rætt saman og kynnt sér nýjustu rannsóknir.
Opnað verður fyrir skráningu á þingið eftir páska. Ekki verður annað sagt en að ráðstefnugjaldið sé hóflegt, 9.000 krónur fyrir þriggja daga viðburð. Nemendur fá afslátt og greiða 4.900 krónur.
Íslenska söguþingið 2022 hefst með minningarfyrirlestri Jóns Sigurðssonar sem Valerie Hansen prófessor í sagnfræði við Yale Háskóla flytur á fimmtudeginum. Á föstudegi og laugardegi verður svo hver málstofan á fætur annarri haldin. Dagskrá þingsins er að finna á heimasíðu þess.
Við hvetjum alla sagnfræðinga og annað áhugafólk um sögu til að mæta á söguþingið og njóta þar góðs félagsskapar og fræða.
Þá er ekki úr vegi að benda fólki á Facebook-síðu Íslenska söguþingsins.