Eins og fram hefur komið voru tíundi og ellefti heiðursfélagi Sagnfræðingafélags Íslands í 50 ára sögu félagsins kjörnir á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Anna Agnarsdóttir og Helgi Þorláksson hlutu heiðurinn fyrir mikilvægt framlag sitt til fræða, kennslu og félagsstarf sagnfræðinga. Bæði tóku þau til máls og þökkuðu fyrir sig. Við birtum hér búta úr ræðum þeirra.
Hverjir eru sagnfræðingar?
Helgi var í fyrstu stjórn Sagnfræðingafélags Íslands fyrir 50 árum og tók þátt í stofnun félagsins. Hann rifjaði það upp í ræðu sinni að talsvert hefði verið fjallað um það hverjir væru gjaldgengir í félagið; hvort það væru aðeins þeir sem lokið hefðu prófi í sagnfræði eða einnig aðrir sem lögðu stund á sagnfræðileg skrif. Niðurstaðan varð sú að fólk með próf í sagnfræði fengi aðild að félaginu en einnig annað fólk sem þætti sýnt fram á að stæðist fræðilegar kröfur. „Þetta um fræðilega hugsun, fræðileg tök sem viðmið, ríkti greinilega þegar fyrstu heiðursfélagar Sagnfræðingafélagsins voru kjörnir, Lúðvík Kristjánsson, Anna Sigurðardóttir, Jakob Benediktsson og Haraldur Sigurðsson, öll án háskólaprófs í sagnfræði en lögðu mikið af mörkum í greininni. Ekki amalegt að vera kominn í hóp þeirra sem heiðursfélagi.“
Helgi sagði meðal annars sögu sem varpar ljósi á breytta tíma: „Björn [Þorsteinsson] sagði þá sögu að Jóhann [Sveinsson] frá Flögu hefði spurt sig hvort Skúli Þórðarson væri próflaus. „Nei, hann er mag. art frá Kaupmannahöfn í sagnfræði“, sagðist Björn hafa sagt og spurt á móti: „Af hverju spyrðu?“ Jú, Jóhann sagðist hafa heyrt einhvers staðar að Skúli hefði verið kallaður sagnfræðingur. Titillinn var á þessum tíma líklega oftast notaður um menn sem höfðu ekki lokið háskólaprófi í greininni, hinir háskólamenntuðu kölluðu sig hins vegar cand. mag. eða mag. art., að jafnaði.“
Helgi gegndi ýmsum embættum í stjórn Sagnfræðingafélags Íslands. „Ég var fyrst meðstjórnandi 1971-2 en árið eftir, 1972-3, var ég orðinn ritari og 22 árum síðar var ég orðinn varaformaður. Þetta verður að teljast frami, að vísu ekki skjótur. Ekki ber þó að skilja þetta þannig að ég hafi verið samfellt í stjórn…“ sagði Helgi sem kom inn í stjórn á tíunda áratugnum þegar undirbúin var fræg ferð sagnfræðinga til Grænlands. Síðar átti Helgi eftir að leggja til nafnið að póstlista Sagnfræðingafélags Íslands: Gammabrekku: „Sigurður Gylfi Magnússon sagði frá þessu svona: „Helgi Þorláksson prófessor lagði til hið smellna nafn Gammabrekka eftir útsýnisstað við Odda á Rangárvöllum“. Ekki voru allir hrifnir, kona sem ég ræddi við einu sinni sagði: „Er þetta á þessum póstlista sagnfræðinga, Gammabrekku? Nafnið er hræðilegt“. Hún hefur víst haft hrægamma í huga en flestum mun hafa verið hugsað til gæðinga, samanber „láttu gamminn geisa“, osfrv. Núna þykir líklegt að þarna sé miðað við orðið gammur í merkingunni „hellir“ eða „skúti“, það vantar ekki hella í Odda og er þessi fróðleikur í boði mínu, ykkur að kostnaðarlausu. Gammabrekka er annars fallegur og frægur útsýnisstaður, lofaður af mörgum, og póstlistinn heppnaðist vel.“
Höfum valið leitina að sannleikanum
„Við eigum bara eitt líf – því trúi ég – og við höfum öll valið að leggja sagnfræðina fyrir okkur – að leita að sannleikanum um fortíðina til að skilja betur samtíma okkar – eins og við komum nú öll úr ólíkum áttum. Það er dásamlegt finnst mér,“ sagði Anna. „Við erum hér á öllum aldri og ég vona að ég fái að fylgjast vel með framgangi yngri kynslóða.“
Anna spurði hvað hún hefði gert fyrir sagnfræðistéttina í heild: „Því er auðsvarað. Íslenska söguþingið! Það var fyrst haldið 1997 og var ég þar í félagi með mínum afburðavini Eggerti Þór Bernharðssyni og Hrefnu – núverandi þjóðskjalaverði. Það var svo gaman að undirbúa þetta þing! Eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Þingið var glæsilegt – við vorum með svo marga toppa – VIPs – að ég þurfti að fá Amalíu á rektorsskrifstofunni til að hjálpa mér að raða á fyrsta bekk.“
Anna rakti undirbúning þingsins; skipulagningu dagskrár, tilurð merkis Sagnfræðingaþingsins sem hefur haldið sér og dagleg viðtöl og fréttir af þinginu sem birtust í Morgunblaðinu. „Við bjuggum til minjagripi – hver á ekki Söguþingsbollann eða söguþings pappírsvigt? En fáir eiga sennilega bolinn lengur – merki Söguþingsins afmáðist í fyrsta þvotti!“