Skip to main content

Markús Þórhallsson, formaður Sagnfræðingafélags Íslands, flutti skýrslu stjórnar á aðalfundi félagsins 17. mars 2022. Hér má lesa hana í heild sinni.

Kæru gestir

Sagnfræðingafélag Íslands fagnaði þeim áfanga á yfirstandandi starfsári að verða fimmtugt og það þykir alltaf merkur áfangi í lífi hvers og eins. Þrátt fyrir heimsfaraldur held ég að okkur hafi tekist að halda með þokkalegum brag upp á áfangann en vonandi gefst okkur færi á að gera enn betur á næsta ári.

Rétt tæpt er ár er síðan aðalfundur ársins 2021 var haldinn hér í þessum sal. Þá var sá sem hér stendur endurkjörinn formaður til tveggja ára – ég skal gera mitt besta til að efla félagið enn frekar á næsta ári. En það gerist bara með öflugu sameiginlegu átaki sem hefur aldeilis verið reyndin á því starfsári sem nú er að ljúka.

Kjörtímabili fjögurra stjórnarmanna lauk á aðalfundi. Anna Þorbjörg Þorgrímsdóttir dró sig í hlé og eru henni þökkuð störf fyrir félagið. Brynjólfur Þór Guðmundsson, Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Sverrir Jakobsson gáfu kost á sér til endurkjörs. Kristbjörn Helgi Björnsson gaf einnig kost á sér í stjórn. Ekki bárust fleiri framboð og voru þau því sjálfkjörin í stjórn til tveggja ára. Nú hefur Sverrir hins vegar ákveðið að láta af stjórnarstörfum og Íris Gyða Guðbjargardóttir einnig. Hún lýkur nú sínu þriðja kjörtímabili. Þeim ber að þakka góð störf í þágu félagsins, Sverri sem varaformanni og Írisi sem ritara undanfarin ár. Því verða kosnir tveir nýir stjórnarmenn á þessum fundi.  Ragnhildur Anna Kjartansdóttir gefur kost á sér til endurkjörs

Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor í menningarsögu og fyrrverandi formaður Sagnfræðingafélags Íslands, hélt fyrirlestur um félagið í fortíð, nútíð og framtíð. Flottur og fræðandi fyrirlestur – auk þess sem Sigurður Gylfi er alltaf einstaklega hvetjandi í garð stjórna félagsins hverju sinni.

Samskipti og fundir stjórnar hafa æ meira færst yfir á netið í ljósi aðstæðna og stjórnarfundir í eigin persónu því fáir en samhent stjórn getur tekið góðar ákvarðanir þótt hún sitji ekki saman við borð. Ég hygg að okkur hafi tekist það á þessu ári.

Loksins fór ný vefsíða félagsins í loftið eftir nokkuð langar fæðingarhríðir  – og verður í stöðugri þróun áfram. Það er eðli vefsíða. Nú er lénið meira að segja íslenskt: sagnfraedingar.is! Það ber að þakka Önnu Þorbjörgu Þorgrímsdóttur aftur og enn fyrir þá undirbúningsvinnu sem hún vann, Hafdísi Erlu Hafsteinsdóttur sem tók við keflinu og lauk verkefninu með myndarbrag og Brynjólfi Þór Guðmundssyni sem hefur haft veg og vanda af því að skrifa efni á vefinn okkar – og aðra miðla félagsins. Vonandi eflist vefsíðan enn frekar á nýju ári.

Facebook síðan Íslenskir sagnfræðingar er í stjórn félagsins en lifir að mestu sjálfstæðu lífi en Gammabrekka er fyrst og fremst orðin að tilkynningatæki – enda orðið fátítt að fólk skiptist lengi á skoðunum gegnum tölvupóst. Það má alveg velta fyrir sér hvort ekki megi nota þetta flotta heiti og upprunalegu hugmyndina til einhverra dáða og afreksverka á sviði sagnfræðinnar. Svo má geta þess að komin er síða um Sagnfræðingafélagið á opnu alfræðibókinni Wikipedia.

Þann þriðja júní efndi félagið til málþings eftir uppástungu Njarðar Sigurðssonar sagnfræðings og Braga Þorgríms Ólafssonar. Umfjöllunarefnið var handritamálið hið nýja en Lilja D. Alfreðsdóttir menntamálaráðherra hefur velt upp þeim möguleika að fá fleiri handrit heim frá Danmörku. Sitt sýnist hverjum um það. Hún ávarpaði þingið sem var vel sótt, um sjötíu manns hlýddu á erindi þeirra Njarðar og Braga, Gottskálks Jenssonar rannsóknardósents við Kaupmannahafnarháskóla, gestaprófessor og Guðrúnar Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Más Jónssonar, prófessors í sagnfræði við Háskóla Íslands. Fjörugar umræður sköpuðust í kjölfar erindanna en upptaka af málþinginu er aðgengileg á vef félagsins og YouTube rás þess. Þessi viðburður og fleiri vöktu athygli fjölmiðla sem fjölluðu nokkuð ítarlega um þá. Tveir frummælenda voru til dæmis fengnir í Kastljós um kvöldið.

Í september töluðu sagnfræðingarnir Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Stefán Pálsson og María Bjarnadóttir lögfræðingur á fundi félagsins um karlmennsku, íþróttir og þjóðernishyggju. Fundurinn var haldinn í framhaldi af mikilli umræðu um eitraða karlmennska, íþróttir, ofbeldi, stöðu afreksmanna í íþróttum og þolenda, sem og viðbrögð forystufólks í íþróttahreyfingunni við frásögnum um kynferðislegt eða kynbundið ofbeldi og áreitni.

Skömmu eftir alþingiskosningar síðastliðið haust bauð Sagnfræðingafélagið til afmælisveislu í tilefni fimmtugsafmælisins með fordrykk og köku á Hótel Borg. Fullt var út úr dyrum enda gaman að gleðjast með fílhraustu afmælisbarninu daginn sem það varð fimmtugt 30. september.

Guðni Th. Jóhannesson forseti flutti ávarp í upphafi málþingsins og Anna Agnarsdóttir, prófessor emerita, hélt svo erindi, leit yfir salinn og sá að hún hafði kennt flestum eða öllum sem þar sátu. Flosi Þorgeirsson, annar umsjónarmaður hlaðvarpsins Draugar fortíðar sagði það kost í sínu hlutverki að vera sagnfræðimenntaður. Helga Maureen Gylfadóttir, deildarstjóri miðlunar og fræðslu á Borgarsögusafni, sagði að samtíminn líkt og sagan væru efniviður safnanna. Ragnheiður Kristjánsdóttir, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, sagði afraksturinn af störfum sagnfræðinga og flóknum og áleitnum spurningum þeirra vera óbeinan og óáþreifanlegan: „[Sagnfræðin] er ekkert sérstaklega arðbær og hún bjargar ekki mannslífum.“

Upptökur af afmælisþinginu eru aðgengilegar á vefnum og víðar. Svona fyrir þau ykkar sem ekki komust eða ef þið viljið rifja upp stemmninguna.

Bókakvöld var haldið 25. nóvember þar sem fjallað var um nokkur ný sagnfræðirit. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir tók fyrir bókina Galdur og guðlast: Dómar og bréf ritstýrð af Má Jónssyni.

Guðmundur Hálfdánarson ræddi bókina Kristinn og Þóra: Rauðir þræðir eftir Rósu Magnúsdóttur og Anna Agnarsdóttir Þrautseigju og mikilvægi íslenskrar tungu: Um notkun dönsku og erlend áhrif á íslensku eftir Kristjönu Vigdísi Ingvadóttur.

Loks tók Rósa Magnúsdóttir fyrir bókina Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu eftir Hauk Ingvarsson. Þess ber að geta að bókakvöld er nú í undirbúningi enda fjöldinn allur til af nýjum og nýlegum afar áhugaverðum sagnfræðiritum.

Áttunda nóvember var enn efnt til málþings þar sem þess var minnst að 30 ár voru liðin frá falli Sovétríkjanna og 35 ár frá fundi Mikaíls Gorbachevs leiðtoga þeirra og Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta í Reykjavík. Þau Viktoría Bakshina, Jón Ólafsson og Valur Gunnarsson fjölluðu um fall Sovétríkjanna, þróun mála í Rússlandi og nágrannaríkjum síðan þá og lífið í Rússlandi Jeltsíns og Pútíns. Valur og Jón fóru í fjölda viðtala í tengslum við fundinn. Það voru Valur og Gunnar Þór Bjarnason – sem svo stýrði fundi – sem áttu frumkvæði að honum. Sagnfræðingafélagið á að vera lifandi vettvangur sagnfræðinga og því hvet ég þá til að koma á stjórnina hugmyndum af fundum, viðburðum eða hverju öðru sem þeim dettur í hug. Í ljósi atburða síðan þá er vel þess virði að kíkja á vefsíðuna eða YouTube rásina og hlusta á erindin. Ég vil nota tækifærið og þakka Eggerti Gunnarsyni kærlega fyrir upptökunar af viðburðum félagsins, sem hann klippti einnig til og snotraði.

Um miðjan janúar ákvað stjórnin að blása af alla fyrirhugaða fundi í ljósi útbreidds smits kórónuveirunnar í samfélaginu en margt er á dagskrá á komandi mánuðum.

Um leið og ég vil þakka stjórninni kærlega fyrir samstarfið á árinu vil ég aðeins segja að framtíð Sagnfræðingafélagins er björt – önnur gefandi og góð fimmtíu, hundrað eða hundrað fimmtíu ár eru framundan fyrir íslenska sagnfræði og íslenska fræðimenn. Þótt stundum virðist á brattan að sækja er leitin að því sem sannara reynist svo rækilega greipt í sál sagnfræðingsins að ekkert aftrar honum í leitinni.  Takk fyrir mig.

Markús Þórhallsson formaður flytur skýrslu stjórnar.