Skip to main content

Næstkomandi þriðjudag, þann 25. september, verður annar fyrirlestur vetrarins í hádegisfyrirlestraröð Sagnfræðingafélags Íslands undir yfirskriftinni Hvað er fátækt? Að þessu sinni mun Már Jónsson prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands flytja erindi sitt „Þeim eru mislagðar höndur þeim herrum. Bjargarskortur í Breiðafjarðareyjum undir lok 19. aldar“.
Fyrirlesturinn er haldinn í fyrirlestrasal Þjóðminjasafns Íslands og hefst stundvíslega kl. 12:05
Í sendibréfum skrifuðum í Skáleyjum árin 1882-1886, sem fundust nýverið í Þjóðskjalasafni, birtist erfið afkoma fólks í harðindum sem þá stóðu yfir af völdum viðvarandi kulda og aflabrests. Bréfritarar, sem voru nokkuð vel stæðir, útskýra aðstæður sínar og hafa áhyggjur af framtíðinni en ræða jafnframt almenn atriði, svo sem útdeilingu gjafakorns á vegum stjórnvalda. Einnig víkja þeir að kjörum sveitarlima og verða hreppsbækur Flateyjarhrepps frá síðustu tveimur áratugum aldarinnar nýttar til að útskýra samfélagslegt samhengi algjörrar örbirgðar sem sumir bjuggu við og hvað gert var til að halda lífi í þeim sem ekki gátu bjargað sér sjálfir. Oft er talað um að í Breiðarfjarðareyjum hafi aldrei nokkuð maður liðið skort, en það stenst ekki nákvæma skoðun.
Fyrir hönd Sagnfræðingafélags Íslands,
Vilhelm Vilhelmsson