Skip to main content

Þriðji fyrirlestur haustsins verður haldinn þriðjudaginn 8. október. Allir fyrirlestrarnir eru haldnir í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands í fundasal þess og hefjast kl. 12:05. Yfirskrift fyrirlestra haustsins er Trú og Samfélag. Rakel Edda Guðmundsdóttir mun flytja erindið „Alt það, sem við ekkert hefir að keppa, dofnar og deyr“. Blaðaumræður um aðskilnað ríkis og kirkju, guðfræði og trú í kringum aldamótin 1900.
Í erindinu er sjónum beint að orðræðu, stíl og helstu röksemdum sem beitt var í skoðanaskiptum um aðskilnað ríkis og kirkju, skipan kirkjumála almennt og guðfræði í íslenskum blöðum á árunum í kringum aldamótin 1900.

Umræðan var umfangsmikil og ástríðufull, á köflum heiftúðug. Álitaefnin sneru að eðli og framtíð íslensku kirkjunnar og forsendum trúarlífs í landinu.
Deilt var um hagnýt sjónarmið og ídealísk þegar kom að hlutverki guðfræði og kirkju í samfélaginu. Heilindi kirkjunnar voru mörgum hugleikin og töldu sumir að þau yrðu aðeins tryggð í frjálsri kirkju. Á tímabili töldu margir, þar með talinn biskupinn yfir Íslandi, að einungis væri tímaspursmál hvenær til aðskilnaðar ríkis og kirkju kæmi, en þingsályktunartillaga um aðskilnað hlaut samþykki neðri deildar Alþingis 1909.
Aðrir vöruðu við siðferðilegri upplausn ef ríkið missti kirkjuna frá sér, og enn aðrir óttuðust trúarlegt ofstæki ef ríkið tapaði taumhaldinu á kirkjunni.
Sterkt ákall var uppi um frjálslyndari og nútímalegri guðfræði, jafnvel „kreddu“- og játningalausa kirkju. Sumum þóttu slíkar hugmyndir jaðra við guðlast og vega að kjarna trúarbragðanna. Á tímabilinu kom jafnframt upp á yfirborðið eindregin gagnrýni á trú og kirkju, í fáeinum tilvikum, hrein guðsafneitun eða trúleysi. Opinber umræða um slíkar skoðanir var næsta óhugsandi fyrr en með trúfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar 1874.
Meðal spurninga sem velt er upp í erindinu, eru: Úr hvaða jarðvegi spratt þessi umræða? Hvað varð um hana? Hvað skildi hún eftir sig?
Rakel Edda er með BA-próf í sagnfræði og MA-próf í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hún stundar nú MA-nám í sagnfræði við Háskóla Íslands og hyggur á útskrift í febrúar. Hún er jafnframt sjálfstætt starfandi tónlistarmaður og starfar hjá Ríkisútvarpinu, Rás 1. Erindið byggir á efni meistararitgerðar hennar sem hún mun ljúka á næstunni.
Fyrirlestrarnir eru öllum opnir og aðgangur er ókeypis.